Andlátið rannsakað sem manndráp

Fyrsta stóra verkefnið hans var innsetningarathöfn Barack Obama í embætti forseta Bandaríkjanna í janúar 2009. Síðasta verkefnið hans var að verja þinghúsið fyrir æstum múg sem ruddist inn í þinghúsið. Múgur sem vildi koma í veg fyrir að þingheimur staðfesti kjör Joe Biden í embætti forseta.

Lögreglumaðurinn Brian Sicknick lést af völdum áverka sem hann hlaut í þinghúsinu miðvikudaginn 6. janúar. Árásarmennirnir sem réðust inn í þinghúsið sprautuðu piparúða í augu hans og svo var hann sleginn í höfuðið með slökkvitæki. Sicknick náði að komast inn á varðstofuna þar sem hann hneig niður og var fluttur á sjúkrahús en sjúkraflutningafólkið endurlífgaði hann í tvígang á leiðinni á sjúkrahúsið. Ekki tókst að bjarga lífi hans en að sögn föður Brians, Charles Sicknick, var ákveðið að reyna ekki að gera aðgerð á höfði hans.

Brian Sicknick lést af völdum áverka er hann hlaut er …
Brian Sicknick lést af völdum áverka er hann hlaut er æstur múgur ruddist inn í bandaríska þinghúsið á miðvikudag. AFP

Hann elskaði starfið sitt

 „Ef þeir hefðu skorið hann upp þá hefði hann endað sem grænmeti,“ segir Charles Sicknick í viðtali við Reuters. Sonur hans var 42 ára gamall er hann lést á fimmtudagskvöldið.

„Hann elskaði starfið sitt,“ segir Charles Sicknick við Reuters. „Ég mun aldrei komast yfir þetta.“ 

Dauði Sicknicks er rannsakaður sem manndráp af lögreglunni í Washington með stuðningi alríkislögreglunnar. Hann er sjötti lögreglumaður þinghússins sem deyr við skyldustörf frá upphafi. 

Fimm létust í átökunum í þinghúsinu en aðrir voru í hópi þeirra sem ruddust inn. Að sögn föður Sicknick var lögreglumaðurinn stuðningsmaður Trumps. Lítið var rætt um stjórnmál á heimilinu og segir faðir hans að stjórnmálaskoðanir Brians hafi aldrei haft áhrif á störf hans.

Bæði varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, og forseti fulltrúadeildarinnar, Nancy Pelosi, hringdu í Sicknick-fjölskylduna á föstudagsmorguninn til að votta þeim samúð sína og Pelosi bauð þeim að vera viðstödd minningarathöfn um helgina. 

Áður en Sicknick hóf störf í þinghúsinu var hann í flughernum og starfaði meðal annars í Sádi-Arabíu og Kírgistan. 

Barinn í höfuðið með slökkvitæki

Brian D. Sicknick.
Brian D. Sicknick. AFP

Líkt og greint var frá á mbl.is á föstudagsmorgun lést hann af völdum áverka er hann hlaut af völdum árásarfólksins. Ekki var búið að gefa upp á þeim tíma annað en að hann hefði misst meðvitund eftir komuna á varðstofuna og látist af völdum áverka á fimmtudagskvöldinu á sjúkrahúsi. Síðar um daginn var greint frá því að hann hefði verið sleginn í höfuðið með slökkvitæki. Hann hefði látist klukkan 21:30 á fimmtudagskvöldinu. 

Kona úr stuðningsliði Trumps, Ashli Babbitt, var skotin til bana er hún klifraði inn um brotinn glugga við afgreiðslu fyrir framan skrifstofu forseta þingsins. Hinir þrír urðu bráðkvaddir á svæðinu í kringum þinghúsið. 

Frétt New York Times

Neitað í sex skipti

AFP

Tveimur dögum áður en þingið átti að staðfesta kjör Joe Bidens var lögreglustjórinn í þinghúsinu, Steven Sund, orðinn mjög áhyggjufullur yfir þróun mála vegna þess mikla fjölda stuðningsmanna forsetans sem hafði boðað komu sína til Washington til að mótmæla.

Því ákvað hann að óska eftir því við yfirmenn öryggismála í bæði fulltrúa- og öldungadeildinni að fá heimild til þess að óska eftir því við þjóðvarðliðið að það yrði til reiðu ef þörf væri á. Sund segir í viðtali við Washington Post í gær að þeirri beiðni hans hafi verið hafnað. Þetta er fyrsta viðtalið sem Sund veitir eftir að ráðist var inn í þinghúsið. 

Að sögn Sund voru yfirmenn hans ragir við að stíga það skref þrátt fyrir að leyniþjónusta lögreglunnar hefði bent á að líklega myndu fleiri stuðningsmenn Trumps mæta á svæðið en í fyrri mótmælum. 

Sund hefur eftir Paul D. Irv­ing sem stýr­ir ör­ygg­is­mál­um í þingsal að honum þætti erfitt að lýsa fyrir fram yfir neyð áður en mótmælin hæfust og Michael C. Stenger, yf­ir­maður ör­ygg­is­mála í öld­unga­deild­inni, hafði lagt til að Sund myndi óformlega hafa samband við þá sem hann væri í tengslum við innan þjóðvarðliðsins og biðja þá um að vera til taks ef þörf yrði á aðstoð. Þremenningarnir hafa all­ir sagt upp störf­um eft­ir at­b­urðina á miðviku­dag. 

Hvorki Irving né Stenger tjáðu sig um ummæli Sund í fréttinni en ekki hefur tekist að hafa upp á Irving, hann er fluttur út úr húsi sínu og símanúmer hans virkar ekki lengur. Stenger neitaði að tjá sig þegar eftir því var leitað í gær. 

Þetta var í fyrsta skipti af sex sem Sund óskaði eftir hjálp og beiðninni var annaðhvort hafnað eða frestað. Tveimur dögum síðar, síðdegis 6. janúar, óskaði hann fimm sinnum eftir aðstoð. Her átta þúsund stuðningsmanna Trump streymdi niður Pennsylvania Avenue eftir að hafa hlýtt á Trump ávarpa hópinn. Ekki tók nema 15 mínútur að rjúfa varnir lögreglunnar í þinghúsinu að vestanverðu. Enda máttu 1.400 lögreglumenn sín lítils á móti hópnum. 

Frétt Washington Post

mbl.is

Bloggað um fréttina