Sendinefnd WHO til Kína

AFP

Tíu vísindamenn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) munu koma til Kína á fimmtudag til að rannsaka uppruna Covid-19 að sögn kínverskra yfirvalda. Rúmt ár er síðan kórónuveirufaraldurinn braust út. Kínversk yfirvöld eru sökuð um að hafa reynt að hindra rannsóknina en fyrsta smitið greindist í kínversku borginni Wuhan.

Lengi hefur þess verið beðið að sendinefnd WHO fengi að koma til Kína en að sögn kínverskra heilbrigðisyfirvalda mun sendinefnd WHO vinna náið að rannsóknum á uppruna veirunnar með kínverskum vísindamönnum. Um tvær milljónir jarðarbúa eru látnar af völdum Covid-19 svo vitað sé. 

Fyrr í mánuðinum varð seinkun á för hópsins til Kína af völdum kínverskra yfirvalda og lýsti framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfir miklum vonbrigðum vegna þess að kínversk yfirvöld hefðu ekki heimilað komu hópsins til Kína. Þá voru tveir vísindamenn þegar lagðir af stað upp í ferðalagið til Kína. 

Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins sagði að málið hefði byggt á misskilningi og reyndu yfirvöld þar í landi að gera lítið úr þessu atviki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert