Navalní úrskurðaður í 30 daga varðhald

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hefur verið færður í 30 daga varðhald. Hann var handtekinn á flugvelli í Moskvu í gær, eftir að hafa snúið aftur til heimalandsins frá Berlín þar sem hann jafnaði sig eftir eitrun sem hann varð fyrir á síðasta ári. 

Saksóknarar halda því fram að Navalní hafi rofið skilorð á fyrri dómi sem hann hlaut fyrir fjárdrátt. Navalní heldur því fram að sá dómur hafi verið á pólitískum forsendum. 

Bandarískir og evrópskir stjórnmálamenn hafa kallað eftir því að Navalní verði látinn laus úr haldi. 

Navalní var við dauðans dyr eftir að eitrað var fyrir honum í ágúst síðastliðnum. Hann segir að rússnesk stjórnvöld hafi verið þar að verki, en yfirvöld í Kreml hafa þvertekið fyrir það. 

Navalní kom fyrir dómara í dag og var úrskurðaður í varðhald til 15. febrúar fyrir brot á skilorði. Hann mun koma fyrir dómara aftur 29. janúar og verður þá tekin ákvörðun um hvort Navalní afplánar þriggja og hálfs árs skilorðsbundinn dóm.



Navalní handtekinn á flugvellinum í Moskvu.
Navalní handtekinn á flugvellinum í Moskvu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert