Sögð hafa ætlað að selja gögn Pelosi til Rússa

Nancy Pelosi, þingmaður Demókrataflokksins og forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins.
Nancy Pelosi, þingmaður Demókrataflokksins og forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins. AFP

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur hafið rannsókn á því hvort að kona, sem var hluti af hópnum sem réðst inn í bandaríska þinghúsið 6. janúar sl., hafi stolið fartölvu eða hörðum disk frá Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar þingsins, með það að markmiði að selja þýfið til Rússlands.

Þetta kemur fram í opinberum dómsskjölum í máli sem höfðað hefur verið gegn konunni, Riley June Williams, en myndbandsupptökuvélar náðu henni á mynd inni í þinghúsinu þar sem hún var nálægt skrifstofu Pelosi. Politico greinir frá þessu.

Brotist var inn á skrifstofuna og við það tilefni var ein þekktasta myndin frá innrásinni tekin, þar sem maður situr við skrifborð með Pelosi með fæturna uppi á borði. Sá hefur verið handtekinn.

Richard Barnett hefur verið handtekinn fyrir sinn þátt í innrásinni …
Richard Barnett hefur verið handtekinn fyrir sinn þátt í innrásinni í bandaríska þinghúsið. AFP

Er talin vera í felum

Ekki hefur verið gefið upp hvort að alríkislögreglan hafi haft uppi á June, sem er búsett í Pennsylvaníu, en í dómsskjölunum stendur að hún hafi flúið. Nánar til tekið kemur þar fram að móðir Williams segir hana hafa pakkað fötum í tösku og kvatt móður sína með þeim orðum að hún yrði fjarverandi í tvær vikur án þess að taka fram hvert hún væri að fara.

Vitni sem talaði við alríkislögregluna sagðist hafa séð myndskeið af Williams „fjarlægja fartölvu eða harðan disk af skrifstofu Pelosi“. Vitnið sagðist einnig hafa heyrt af því að Williams ætlaði sér að selja tækið til vinar síns í Rússlandi, en sá mun hafa ætlað að selja það áfram til SVR, utanríkisleyniþjónustu Rússa. Vitnið sagði jafnframt að ráðabruggið hafi ekki gengið eftir og Williams sé því enn með tækið af skrifstofu Pelosi í fórum sínum.

mbl.is