Vill breytta stefnu í innflytjendamálum

Starfsmenn innflytjendastofnunar Mexíkó biðja mann um skilríki á leið hans …
Starfsmenn innflytjendastofnunar Mexíkó biðja mann um skilríki á leið hans frá Gvatemala til Mexíkó. AFP

Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, hefur hvatt Bandaríkin til að breyta stefnu sinni í innflytjendamálum á sama tíma og þúsundir flóttamanna voru stöðvaðir af lögreglunni í nágrannaríkinu Gvatemala.

Lopez Obrador vonar að Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, samþykki að starfa með Mexíkó og fleiri löndum í þessum efnum, að því er BBC greindi frá.

Um sjö þúsund flóttamenn, mestmegnis frá Hondúras, eru komnir til Gvatemala. Þeir vonast til að ferðast til Mexíkó og komast þaðan að bandarísku landamærunum.

Fólk á leið frá Gvatemala til Mexíkó.
Fólk á leið frá Gvatemala til Mexíkó. AFP

Á hverju ári reyna tugir þúsunda íbúa Mið-Ameríku að komast til Bandaríkjanna, oftast fótgangandi. Þeir segjast vera að flýja ofsóknir, ofbeldi og fátækt í heimalöndum í sínum. Aðstæðurnar hafa versnað í kjölfar tveggja stórra fellibylja á svæðinu í nóvember.

„Mér finnst vera kominn tími til að standa við skuldbindingarnar [varðandi umbætur í innflytjendamálum] og því vonumst við eftir,“ sagði Lopez Obrador.

mbl.is