Vonast eftir betri tengslum

Íbúi Havana staldrar við strandgöngugötuna vinsælu í borginni.
Íbúi Havana staldrar við strandgöngugötuna vinsælu í borginni. AFP

Efnahagsþvinganir ríkisstjórnar Donalds Trump gegn Kúbu ollu tjóni upp á tuttugu milljarða bandaríkjadali fyrir eyríkið.

Þetta segir háttsettur embættismaður utanríkisráðuneytis landsins, Johana Tabalada, í samtali við fréttastofu AFP.

„Skaðinn á gagnkvæmum tengslum landanna á þessum tíma hefur verið töluverður, og efnahagslegt tjón fyrir Kúbu gífurlegt,“ hefur fréttastofan eftir Tabalada.

„Við metum það á um tuttugu milljarða,“ bætir hún við.

Trump, sem lauk kjörtímabili sínu í dag, nýtti tíma sinn í embætti forseta meðal annars til að herða aðgerðir gegn nágrannaþjóðinni í suðri.

Fyrr í þessum mánuði setti ríkisstjórnin Kúbu aftur á lista yfir ríki sem styðja við hryðjuverk og tók þar með til baka ákvörðun Barack Obama árið 2015, sem tók ríkið af listanum. Þá var Joe Biden varaforseti, en hann tók í dag sem kunnugt er við embætti forseta.

Frá Havana, höfuðborg Kúbu, fyrr í mánuðinum.
Frá Havana, höfuðborg Kúbu, fyrr í mánuðinum. AFP

240 mismunandi aðgerðir gegn Kúbu

Trump ógilti líka fleiri ákvarðanir sem Obama hafði tekið til að koma á venjulegri tengslum við Kúbu. Tabalada segir um 240 mismunandi aðgerðir hafa verið gerðar gegn Kúbu undir stjórn Trumps.

Meðal annars var bandarískum skemmtiferðaskipum meinað að koma við á eyjunni, fjöldi kúbverskra fyrirtækja og framkvæmdastjóra var settur á svartan lista, farið var í mál við erlend fyrirtæki sem stunduðu viðskipti á eyjunni og Kúbverjum sem störfuðu erlendis gert erfiðara fyrir að senda fé til heimalandsins.

Tabalada segir eyríkið vonast eftir betri tengslum við Bandaríkin undir stjórn nýs forseta úr röðum demókrata.

„Biden hefur sagst vilja snúa við skaðanum sem Trump olli og við höfum enga ástæðu til að draga loforð hans í efa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert