Íhuga eftirlit með AfD

AFP

Leyniþjónusta Þýskalands, sem starfar á innlendum vettvangi, skoðar alvarlega að setja þjóðernisflokkinn AfD undir strangt eftirlit fyrir hótanir sem ganga gegn lýðræðinu.

Leyniþjónustan, Bundesamt für Verfassungsschutz (BfV), mun taka ákvörðun á næstu dögum um framhaldið en rannsókn hefur staðið yfir í tvö ár og gefin út skýrsla upp á rúmar 1.000 blaðsíður um málið. Ákvörðunin lýtur að því hvort flokkurinn, Alternative für Deutschland, verði skilgreindur sem grunsamlegur vegna tengsla sinna við öfgaskoðanir. Ef flokkurinn verður skilgreindur þannig þá hefur leyniþjónustan heimild til að fylgjast grannt með öllu hjá flokknum, svo sem hlera samskipti og jafnvel nýta sér upplýsingar frá fólki sem starfar með leynd innan hans. 

Flokkurinn og flokksmenn hans hafa ítrekað verið gagnrýndir fyrir hatur á innflytjendum og múslimum og ekki síst fyrir að afneita glæpum nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Meðal annars háttsettur einstaklingur innan AfD, Alexander Gauland, sem líkir tímabili nasista við smá­blett af völd­um fugla­drits í langri sögu lands­ins.

Rannsókn BfV kemur á viðkvæmum tíma fyrir AfD en flokkurinn er stærsti stjórnarnandstöðuflokkurinn á þingi. Á sama tíma hafa vinsældir flokksins dalað mjög enda hefur kastljósið beinst að kanslara landsins, Angelu Merkel, og baráttunni við Covid-19.

Leiðtogi AfD, Jörg Hubert Meuthen, hefur hótað lögsókn ef BfV ákveður að hefja formlegt eftirlit með flokknum og segir þetta samsæri af hálfu stjórnvalda en BfV er ríkisstofnun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert