Dómur í máli nýnasista

Stephan Ernst.
Stephan Ernst. AFP

Dómur verður kveðinn upp í Frankfurt í dag yfir nýnasista sem er ákærður fyrir að hafa myrt þýska stjórnmálamanninn Walter Lübcke árið 2019. Morðið vakti mikinn ugg meðal Þjóðverja og beindi sjónum að vaxandi ógn sem stafar af öfgahreyfingum þjóðernissinna.

Lübcke, 65 ára, var for­seti bæj­ar­stjórn­ar fyr­ir hönd kristi­legra demó­krata, flokks Ang­elu Merkel kansl­ara, í þorp­inu Hassel í Saxlandi-An­halt, 70 kíló­metra norður af Hano­ver. Í póli­tík sinni hafði hann tekið upp hansk­ann fyr­ir inn­flytj­end­ur og stutt stefnu Merkels í þeim efn­um.

Stephan Ernst, 47 ára, hefur játað að hafa hleypt af en annar maður, Markus Hartmann, er sakaður um að vera vitorðsmaður hans. Báðir eru þeir þekktir fyrir öfgaskoðanir sínar og saksóknari segir tilefni morðsins vera pólitískar öfgaskoðanir þeirra. 

Walter Lübcke er fyrsti kjörni stjórnmálamaðurinn sem er myrtur í Þýskalandi áratugum saman. 

Markus Hartmann.
Markus Hartmann. AFP

Lögmaður Stephan Ernst segir að þetta hafi verið pólitísk árás og því eigi að fara með málið sem manndráp ekki morð. Aftur á móti krefst saksóknari lífstíðardóms. Ernst er einnig ákærður fyrir morðtilraun fyrir fimm árum. Þá réðst hann á íraskan flóttamann og veitti honum alvarleg sár með hnífi. Fórnarlambið særðist alvarlega í árásinni.

Markus Hartmann neitar aftur á móti sök og segir verjandi hans að sýkna beri skjólstæðing hans af ákæru um að hafa verið í vitorði með morðingjanum. Farið er fram á 9 ára og 8 mánaða fangelsi yfir honum. 

Lübcke var skotinn í garðinum heima hjá sér 1. júní 2019 og fannst hann látinn daginn eftir. Krufning leiddi í ljós að hann var skotinn af stuttu færi í höfuðið. 

Saksóknarar telja að Ernst og félagi hans hafi hlýtt á ræðu Lübcke í október 2015 þar sem hann varði ákvörðun stjórnvalda um að veita flóttafólki aðstoð. Öllum þeim sem ekki væru á sama máli væri frjálst að yfirgefa landið. Ummælunum var dreift víða á samfélagsmiðlum og í kjölfarið lögðu öfgaþjóðernissinnar fæð á Lübcke. 

Eftir að fjöldi kvenna varð fyrir kynferðisofbeldi í Köln á gamlárskvöld 2015 af hálfu flóttafólks og íslamisti gerði árás í Nice árið 2016 hóf Ernst að fylgjast grannt með Lübcke. Frá 2016 til 2018 æfði hann skotfimi með aðstoð Hartmanns og þeir fóru saman á fundi öfgaþjóðernishreyfinga. 

Walter Lübcke var skotinn til bana 1. júní 2019.
Walter Lübcke var skotinn til bana 1. júní 2019. AFP
mbl.is