Sagðist hafa orðið þingmaður fyrir 120 árum

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hélt sinn fyrsta blaðamannafund sem forseti síðdegis í dag. Biden hóf fundinn á því að rekja stuttlega þann árangur sem hann segir að náðst hafi í baráttunni við afleiðingar kórónuveirufaldursins.

Því næst var hann spurður út í innflytjendamál, sem margir vestra segja að hafi ekki enn batnað frá því sem var í stjórnartíð Donalds Trump. Biden sagðist á fundinum ætla að bjóða sig fram til endurkjörs árið 2024. 

48 ár í stað 120

Þegar um 16 mínútur voru liðnar af fundinum mismælti Biden sig hins vegar hrapallega þegar hann svaraði spurningu um meirihlutaræði öldungadeildarinnar. Í öldungadeildinni verða 60% þingmanna að vera samþykkir um að greiða skuli atkvæði um tiltekið frumvarp. Þegar 41% minnihluti þingsins nýtir sér þessa reglu til þess að stöðva frumvörp meirihlutans er það kallað filibuster á ensku.

Biden svaraði spurningu um filibuster á þá leið að hann vildi hverfa aftur til þess fyrirkomulags, sem var við lýði þegar hann varð öldungadeildarþingmaður fyrst og sagði það hafa verið fyrir 120 árum síðan. Joe Biden varð hins vegar öldungadeildarþingmaður árið 1973, fyrir 48 árum síðan.

Gagnrýndur fyrir meðferð innflytjenda á landamærum

Aðeins tók 52 daga fyrir Biden að standa við loforð sitt um að 100 milljón bóluefnaskammtar yrðu notaðir á fyrstu 100 dögum Bidens í embætti. Hann sagði á blaðamannafundinum að nú væri markmiðið að nota 200 milljón bóluefnaskammta áður en fyrstu 100 dagar hans í embætti eru liðnir. Var þetta á meðal þess sem Biden fór yfir í upphafsorðum sínum.

Biden hefur verið gagnrýndur fyrir að vera ekki nægilega fljótur til við að breyta um stefnu í innflytjendamálum frá því sem tíðkaðist í forsetatíð Trumps. Sérstaklega hverfist sú umræða um fylgdarlaus börn á landamærum Bandaríkjanna, sem látin eru dúsa í húsakosti, sem líkist helst fangaklefum, á meðan greitt er úr málum þeirra. 

Biden segir að innflytjendamál í Bandaríkjunum hafi verið í miklu ólagi í tíð Trumps og því taki nú við viðsnúningstímabil. Hann segir þó að öll hans athygli hafi beinst að kórónuveirufaraldrinum og efnahagslegra áhrifa hennar, enn um sinn. Hann kveðst vilja forgangsraða því sem er mikilvægast og taka síðar á öðrum vandamálum, sem hann viðurkenndi fúslega að væru til staðar.

Umræða um byssueign, straum innflytjenda til landsins og annað, hefur verið hávær í Bandaríkjunum í langan tíma og það breytist ekki í einu vetfangi, að sögn Bidens. 

Biden sagði við spurningu um stefnu hans í innflytjendamálum að fjöldi hælisleitenda í Bandaríkjunum hafi ekki aukist í hans tíð, frekar hafi fjöldinn stigmagnast undanfarin ár, óháð því hver sæti á forsetastóli. 

Hann sagði í kjölfarið að engin fylgdarlaus börn ættu að þurfa að dvelja í þeim vistarverum sem nú eru til staðar á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, í lengur en 72 klukkustundir. Hann bætti við að verið væri að vinna úr þeim málum, en að það reyndist erfitt vegna vanrækslu forvera síns í embætti, Donald Trump.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert