Þjóðverjar kaupa beint af Rússum

Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn.
Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn. AFP

Ríkisstjórn Þýskalands ætlar að hefja viðræður við Rússa um kaup á Spútnik V-bóluefninu ef það hlýtur samþykki Lyfjastofnunar Evrópu segir heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn.

Í viðtali við WDR í morgun sagði hann að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndi ekki gera neina samninga við framleiðendur Spútnik líkt og gert hefur verið við aðra bóluefnaframleiðendur eins og Pfizer-BioNTech séu dæmi tekin. „Þannig að ég sagði fyrir hönd Þýskalands á fundi heilbrigðisráðherra ESB að við myndum hefja tvíhliða viðræður við Rússa,“ sagði Spahn í viðtalinu í morgun.

Bólusetning í Berlín.
Bólusetning í Berlín. AFP

Líkt og greint var frá á mbl.is í gær hefur þýska sambandsríkið Bæjaraland skrifað undir bráðabirgðasamkomulag um að kaupa 2,5 milljónir skammta af rússneska bóluefninu þegar eða ef það verður samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu. Forsætisráðherra Bæjaralands, Markus Söder, greindi frá þessu í gær. 

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) hóf áfangamat á  bóluefninu í byrjun mars. Spútnik V er þróað af stofnuninni „Gamaleya National Centre of Epidemiology and Microbiology” í Rússlandi. Umsækjandi á EES-svæðinu er R-Pharm Germany GmbH.

EMA kemur til með að meta gögn eftir þau sem þau verða tiltæk með tilliti til þess hvort ávinningur af notkun lyfsins vegi þyngra en áhættan af notkuninni. EMA mun meta bóluefnið út frá evrópskum stöðlum um virkni, öryggi og gæði. Áfangamatið heldur áfram þar til nægjanleg gögn liggja fyrir til að sækja formlega um markaðsleyfi.

Vegna mögulegs innflutnings á bóluefninu frá Rússlandi hefur einnig verið sett upp framleiðsla á bóluefninu í bænum Illertissen í Bæjaralandi á vegum R-Pharm. 

Mjög hægt hefur gengið með bólusetningar við Covid-19 í Þýskalandi og hafa aðeins 13% Þjóðverja fengið fyrri skammtinn af tveimur. Í dag var greint frá því að yfir 20 þúsund ný smit hafi verið staðfest og yfir 300 látist síðasta sólarhringinn í landinu. 

mbl.is