Handtekinn vegna ummæla á stefnumótaappi

Bandaríska þinghúsið.
Bandaríska þinghúsið. AFP

Karlmaður hefur verið sakaður um að hafa tekið þátt í uppþotunum í bandaríska þinghúsinu eftir að hafa hreykt sér af því í stefnumótaappi.

Robert Chapman frá New York sagði við notanda sem hann var paraður við á smáforritinu Bumble: „Ég ruddist inn í þinghúsið,“ að því er kemur fram í skjali frá bandarísku alríkislögreglunni, FBI.

Chapman fékk svarið „við pössum ekki saman“. Sá sem sendi svarið deildi skjáskoti af samskiptunum með yfirvöldum. Chapman var síðar handtekinn og kærður í New York á fimmtudaginn, að því er BBC greindi frá.

Stuðningsmaður Donalds Trump í þinghúsinu 6. janúar.
Stuðningsmaður Donalds Trump í þinghúsinu 6. janúar. AFP

Í dómskjölum kemur fram að Chapman, sem er frá bænum Carmel í New York-ríki, hafi sagt þeim sem hann var paraður við á Bumble: „Ég ruddist inn í þinghúsið ... Ég komst alla leið inn í Statuary-salinn!“

Að sögn FBI náðist Chapman á líkamsmyndavél lögreglunnar í þessum sama sal meðan á uppþotunum stóð 6. janúar í Washington DC.

Yfir 400 hafa verið kærðir

Á facebooksíðu Chapmans, þar sem hann notar dulnefnið Robert Erick, kemur fram að hann ætlaði að yfirgefa New York daginn fyrir uppþotin, að sögn FBI. Daginn eftir birti hann mynd af sér á síðunni inni í þinghúsinu undir yfirskriftinni: INSIDE THE CRAPITOL!!!“

Chapman var áður handtekinn í New York árið 2017, að sögn lögreglunnar í New York-ríki.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur kært yfir 400 manns fyrir að taka þátt í uppþotunum 6. janúar. Saksóknarar búast við því að kæra að minnsta kosti 100 manns í viðbót vegna þátttöku þeirra.

mbl.is