Fá loksins að fara aftur í skólann

AFP

Frönsk börn og ungmenni sneru aftur í skólastofurnar í dag og Frakkar mega nú ferðast innanlands. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum sóttvarnareglum þar í landi. Aftur á móti hafa hollensk yfirvöld frestað afléttingu til 18. maí hið minnsta.

BBC fjallar um breyttar sóttvarnareglur en samkvæmt þeim geta Frakkar nú ferðast lengra en 10 km frá heimilum sínum og ferðatakmarkanir innanlands afnumdar. Sóttvarnareglurnar sem afnumdar voru í dag höfðu gilt frá því í mars. Aftur á móti er útgöngubann að næturlagi enn í gildi. Það gildir frá klukkan 19 til 6 og hver sá sem brýtur það þarf að greiða 135 evrur í sekt. 

AFP

Næsta aflétting verður 19. maí og þá mega veitingastaðir, barir og kaffihús taka á móti gestum utandyra. Jafnframt verða áhorfendur heimilaðir á íþróttaviðburðum. Opna má versl­an­ir sem selja annað en nauðsynja­vöru, sem og kvik­mynda­hús, söfn og leik­hús. 

Nú greinast um 25 þúsund ný smit daglega í Frakklandi og innan við 5.600 sjúklingar eru á gjörgæsludeildum. Alls eru 28.818 á sjúkrahúsum vegna Covid. 

AFP

Leikskólabörn og yngri nemendur grunnskóla hafa fengið að koma í skólann að undanförnu en nú bættist unglingastigið við. Jafnframt framhaldsskólanemar en þeir verða að gæta fjarlægðar þannig að aðeins er rými fyrir hálfan bekk í einu. Þeir sem eru 11 og 12 ára mættu alls staðar í dag en 13-15 ára fengu ekki að mæta í staðkennslu í 15 héruðum vegna þess að svæðin teljast hásmitasvæði. Þar á meðal er París og nágrenni. Búið er að bólusetja 12,4% fullorðinna í Frakklandi samkvæmt frétt BFMTV.

Í dag voru barir og veitingastaðir opnaðir að nýju í Grikklandi, í fyrsta skipti síðan í nóvember í fyrra. Útgöngubann hefur verið stytt á kvöldin en mjög er takmarkað hversu margir mega vera á hverjum stað. 

Búið er að opna veitingastaði í Grikklandi.
Búið er að opna veitingastaði í Grikklandi. AFP

Í Portúgal var neyðarástandi aflétt á laugardag og landamærin við Spán opnuð að nýju. Jafnframt var afgreiðslutími verslana og veitingastaða lengdur. Portúgalar mega aftur á móti ekki ferðast til landa þar sem smit eru mörg fyrr en 16. maí. 

Í Hollandi átti að draga úr hömlum en því hefur verið frestað eins og áður sagði þar sem nýgengi smita er enn hátt. Í síðustu viku var útgöngubanni að næturlagi aflétt og heimilað að bjóða upp á veitingaþjónustu utandyra. Aftur á móti eru líkamsræktarstöðvar, dýragarðar og önnur afþreying áfram lokuð.

mbl.is