Fundu níu lík í flutningabíl

AFP

Lík níu manna fundust í flutningabíl í mexíkóska ríkinu Michoacan í gær. Samkvæmt tilkynningu frá ríkissaksóknara í Michoacan hafa ekki verið borin kennsl á fólkið, átta karla og konu, en þau höfðu verið skotin til bana. 

Bílnum hafði verið lagt á bílastæði í borginni Zitacuaro. Rannsókn er hafin á morðunum og líkin komin til réttarmeinafræðings til rannsóknar.

Átök á milli skipulagðra glæpasamtaka í Michoacan, sem er við Kyrrahafsströndina, eru ekki ný af nálinni en þau berjast meðal annars um smyglleiðir á fíkniefnum. Í síðasta mánuði fundust átta lík í fjalllendi Aguililla-héraðs.  

mbl.is