Leiðtogar heimsins verði að bregðast við

Fólk á flótta í heiminum hefur aldrei verið fleira.
Fólk á flótta í heiminum hefur aldrei verið fleira. AFP

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvetur leiðtoga heimsins til þess að bregðast núna við því ástandi sem ríkjandi er á meðal flóttafólks í heiminum, ellegar takist ekki að vinda ofan af þeirri þróun sem hefur verið við líði í um áratug sem ofbeldi og ofsóknir einkenna. 

Þrátt fyrir heimsfaraldur Covid-19 fjölgaði fólki á flótta undan stríði, ofbeldi og ofsóknum árið 2020 og eru um 82,4 milljónir samkvæmt nýrri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það er fjögurra prósenta aukning við þegar hæstu tölur sem hafa sést. 

Samkvæmt skýrslunni voru í lok árs 2020 börn á flótta 42 prósent alls flóttafólks. Eru þau í sérstaklega viðkvæmri stöðu einkum í heimsfaraldrinum sem geisað hefur undanfarið. 

Þá segir í skýrslunni að næstum ein milljón barna hafi fæðst á flótta á árunum 2018 til 2020. Mörg þeirra verða á flótta um ókomin ár. 

„Harmleikurinn við að svo mörg börn fæðist í útlegð ætti að vera næg ástæða fyrir leiðtoga heimsins til þess að leggjast á eitt við að koma í veg fyrir átök og ofbeldi,“ sagði Filippo Grandi, yfirmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, um ástandið í yfirlýsingu. 

Árið 2020 er níunda árið í röð þar sem fjölgun er á fólki sem neyðst hefur til að yfirgefa heimili sín og halda á flótta. Mat Flóttamannastofnunarinnar er að um eitt prósent fólks í heiminum sé á flótta, tvöfaldur fjöldi á við árið 2011. 

Meira en tveir þriðju hlutar alls fólks á flótta koma frá fimm löndum; Sýrlandi, Venesúela, Afganistan, Suður-Súdan og Myanmar. 

mbl.is