Metfjöldi andláta í Moskvu

Hitabylgja er ekki eina bylgjan sem gengur yfir Moskvu þessa …
Hitabylgja er ekki eina bylgjan sem gengur yfir Moskvu þessa dagana en delta-afbrigði kórónuveirunnar virðist hafa náð þar fótfestu. 92 létu lífið af völdum Covid-19 í borginni í gær og hafa aldrei verið fleiri á einum sólarhing. AFP

568 dauðsföll af völdum kórónuveirunnar voru tilkynnt í Rússlandi í gær og yfir 20 þúsund smit og hafa ekki verið fleiri frá því í janúar.

Delta-afbrigði veirunnar virðist hafa náð fótfestu í landinu, einkum í Moskvu þar sem 92 létu lífið í gær og 8.500 tilfelli greindust. Aldrei hafa fleiri látið lífið í höfuðborginni á einum sólarhring af völdum veirunnar samkvæmt frétt TASS-ríkisfréttastöðvarinnar. 

Yfir 90% af nýjum smitum í júní má rekja til delta-afbrigðisins, sem greindist fyrst á Indlandi, að sögn Sergei Sobyanin, borgarstjóra Moskvu. Hann hyggst kynna hertar aðgerðir í borginni von bráðar. Í þeim felst meðal annars að veitingastaðir mega aðeins taka á móti fólki sem getur framvísað bólusetningarvottorði, nýlegu PCR-vottorði eða sýnt fram á að það hafi sýkst af veirunni síðustu sex mánuði. 

Bólusetning hófst í Rússlandi í desember og stendur Rússum til boða að láta bólusetja sig endurgjaldslaust. Aðeins 20,7 milljónir af um 146 milljónum íbúa hafa fengið fyrri skammt bólusetningar. Alls hafa 131.463 látist frá því faraldurinn braust út og er dánartíðnin af völdum veirunnar í Rússlandi sú hæsta í Evrópu.

mbl.is