Sakar rík ríki um græðgi

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir þjóðerniskennd ráða ríkjum hvað …
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir þjóðerniskennd ráða ríkjum hvað varðar bólusetningar sem geri ekkert annað en að framlengja faraldurinn. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gagnrýnir „tilgangslausa græðgi“ ríkra ríkja sem íhuga að bólusetja fólk með þriðja skammti bóluefnis á sama tíma og íbúar margra brothættustu ríkja heims eru varnarlausir gegn kórónuveirufaraldrinum. 

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir þjóðerniskennd ráða ríkjum hvað varðar bólusetningar sem geri ekkert annað en að framlengja faraldurinn. Aðeins eitt útskýrir þessa stöðu að hans mati: Græðgi. 

Ghebreyesus varar við því að með þessu áframhaldi muni heimurinn horfa til baka með skömm ef niðurstaðan verði sú að fátækustu ríki heims verði skilin eftir í baráttunni við Covid-19. Hann biður yfirvöld ríkja sem huga nú að kaupum á bóluefni til að geta bólusett íbúa í þriðja sinn að endurskoða ákvörðun sína og veita frekar alþjóðlega bólusetningarsamstarfinu COVAX lið. 

Skortur á alþjóðlegri forystu til að binda endi á faraldurinn

Ghebreyesus var einu sinni sem oftar spurður á blaðamannafundi stofnunarinnar hvenær faraldurinn tæki enda. „Við getum bundið enda á hann fljótlega af því að við höfum nú það sem til þarf,“ sagði hann. Skorti á ákveðinni alþjóðlegri forystu er hins vegar um að kenna að ekki gangi betur að segja skilið við faraldurinn að hans mati. 

Yfir 3,3 milljarðar skammtar af bóluefni gegn Covid-19 hafa verið gefnir í að minnsta kosti 216 ríkjum heimsins samkvæmt AFP-fréttastofunni. Í tekjuháum ríkjum, samkvæmt skilgreiningu Alþjóðabankans, hafa 86 skammtar verið gefnir á hverja 100 íbúa. Hlutfallið í 29 fátækustu ríkjum heims er á sama tíma aðeins einn skammtur á hverja 100 íbúa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert