„Gerðist rosalega hratt“

Íbúar hjálpast að við að bera húsmuni upp úr þeim …
Íbúar hjálpast að við að bera húsmuni upp úr þeim húsum sem búið er að dæla vatni út úr. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum rosalega heppin, það hefði farið mikið verr hefði þetta gerst fyrr um morguninn og allir hefðu verið sofandi, þar sem þetta gerðist rosalega hratt. Ég hefði ekki viljað spurja að leikslokum ef þetta hefði gerst um nóttina,“ segir Sjöfn Mueller Thor, sem býr vestast í Þýskalandi.

Minnst 93 hafa látið lífið í flóðum af völdum úrhellisrigningar í vesturhluta Þýskalands. Þá hafa minnst 12 látið lífið í Belgíu. Stjórnmálamenn benda á loftslagsbreytingar sem raunverulega ástæðu flóðanna en vísindamenn hafa bent á það lengi að búast megi við úrhellisrigningum.

„Við vorum ekki undirbúin fyrir þetta, við erum með lítinn læk fyrir aftan húsið okkar og vorum undirbúin að hann myndi koma upp að húsinu. Við vorum því búin að setja upp smá vörn til að það kæmist ekki niður í kjallara. Varnargarðarnir í stóru ánni, Inde, bresta svona 300 metra fyrir ofan okkur og sú á kemur öfugu megin fyrir framan húsið og niður,“ segir Sjöfn.

„Við höfðum tíu mínútur um morguninn, það var enginn látinn vita af þessu. Þegar ég kom út sá ég að það var byrjað að flæða, þannig við byrjum bara að hlaupa og láta alla nágrannana vita.“

Hljóp niður til þess að sækja jóladótið

„Ég hljóp niður og sótti jóladótið, við erum svo mikil jólabörn. Restina af dótinu í kjallaranum náðum við ekkert að taka upp. Kjallarinn flæddi alveg upp, það voru tvö til þrjú þrep eftir.“

Sjöfn segir að fyrir framan húsið hafi flætt inn í það og fyrir aftan flætt inn í kjallarann. „Ég er ekki einu sinni farin að sjá ofan í kjallarann, það er svo lítið komið niður vatnið en ég reikna með að gólfið þar sé allt ónýtt.“

Hún segir einnig hafa flætt upp um öll rör og niðurföll. „Maður áttaði sig fljótlega á því að það var ekkert sem við gátum gert og þá komu allir nágrannarnir út og við fórum að hjálpa eldra fólkinu að komast út.“

Slöngurnar leiða niður í kjallara. Þar pumpa þær vatninu út.
Slöngurnar leiða niður í kjallara. Þar pumpa þær vatninu út. Ljósmynd/Aðsend

Mikil samstaða meðal íbúa

„Stemningin er svolítið þannig að það eru allir fegnir að það var ekki manntjón. Fólk hugsar að þetta megi alveg yfirstíga þar sem það varð ekki manntjón,“ segir Sjöfn.

„Það er mikil samstaða hjá öllum nágrönnunum, það eru allir að hjálpast að við að bera út þar sem er búið að dæla upp úr kjöllurum.“

Hún segir ekkert vatn vera né rafmagn og að ekki sé mikil bjartsýni á að það komi í bráð, hún segir þetta þess vegna skrýtna stöðu.

„Við gátum ekki verið hér í nótt, það er ekkert rafmagn og ekkert vatn sem þýðir að þú getur ekki notað klósett og sérð ekki neitt. Við erum heppin þar sem maðurinn minn er prestur og gátum gist í kirkju í öðrum bæ,“ segir Sjöfn.

„Hérna í þorpinu er gott hljóð í fólki en annarsstaðar er þetta mikið verr en hjá okkur, maður er bara fegin að þetta fór ekki verr hjá okkur.“

Mikil drulla fylgir vatnsflóðum og leggst hún á allt.
Mikil drulla fylgir vatnsflóðum og leggst hún á allt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert