Verndi jafn vel gegn Alfa og Delta

Bólusetning við Covid-19.
Bólusetning við Covid-19. AFP

Ný gögn frá Bretlandi benda til þess að bóluefni verndi fólk jafn vel gegn alvarlegum veikindum vegna Alfa-afbrigðis Covid-19-veirunnar og Delta-afbrigðisins. Þetta kemur fram í skýrslu embættis landlæknis í Englandi vegna Covid-19-bólusetningar sem kom út í vikunni.

Samkvæmt gögnunum, sem safnað var fram til 13. júní á þessu ári, veittu bóluefni um 93 prósenta vörn gegn alvarlegum veikindum og sjúkrahúsinnlögnum vegna Alfa-afbrigðis veirunnar og um 96 prósenta vörn vegna Delta-afbrigðisins.

Um tíu prósenta munur var þó á vörn bóluefnanna við almennum einkennum vegna afbrigðanna (e. symptomatic disease), það er einkennum sem ekki teljast alvarleg eða tilefni til innlagnar. Tveir skammtar af bóluefni veittu að meðaltali 89 prósenta vörn gegn slíkum einkennum af völdum Alfa-afbrigðis Covid-19 en um 79 prósenta vörn gegn einkennum af völdum Delta-afbrigðisins.

Gögnin eru ekki aðgreind eftir tegundum bóluefna, en fjögur bóluefni hafa verið samþykkt til notkunar í Bretlandi. Þau eru bóluefni Pfizer-BioNTech, Moderna, Oxford-AstraZeneca og Janssen.

Einn af hverjum fjórum ekki lagður inn vegna Covid-19

Samkvæmt gögnum sem breska heilbrigðiskerfið (NHS) birti í fyrsta sinn opinberlega í vikunni, og greint er frá í The Telegraph, liggur einn af hverjum fjórum sjúklingum, sem flokkaðir hafa verið sem Covid-19-innlagnir, á spítala af öðrum ástæðum.

Breska heilbrigðiskerfið hefur frá því í mars birt daglega fjölda þeirra sem lagðir eru inn með Covid-19. Eitt helsta markmið stjórnvalda í baráttunni við veiruna þar ytra hefur verið að verja heilbrigðiskerfið álagi.

Eftir beiðni frá heilbrigðisráðherra landsins hafa tölurnar nú í fyrsta sinn verið aðgreindar í þá sem liggja inni vegna veikinda af völdum kórónuveirunnar og þá sem liggja inni af öðrum ástæðum en eru einnig smitaðir af kórónuveirunni. Spítölum hefur verið gert að safna þessum upplýsingum og ná gögnin nú aftur til 18. júní á þessu ári.

Allir sem lagðir eru inn á spítala í Bretlandi eru skimaðir reglulega fyrir veirunni. Þannig hafa þeir sem leggjast inn á spítala af öðrum ástæðum en Covid-19, til dæmis vegna fótbrots, og vita jafnvel að þeir séu smitaðir, verið taldir með í tölfræðinni yfir þá sem lagðir eru inn með kórónuveiruna, án þess að greint sé á milli þeirra og þess hóps sem er alvarlega veikur vegna Covid-19.

Af 5.021 sem var lagður inn á spítala í liðinni viku smitaður af Covid-19 voru 1.166 á spítala vegna annarra kvilla.

Gagnrýni hefur heyrst frá þingmönnum breska íhaldsflokksins í kjölfar birtingarinnar þess efnis að ríkisstjórnin hafi byggt ákvarðanir sínar hingað til á gölluðum og misvísandi gögnum. Þeir telja að gögnin hafi átt að vera birt fyrir mörgum mánuðum.

Heilbrigðisyfirvöld hafa þó bent á að einstaklingar gætu glímt við veikindi sem tengjast kórónuveirunni óbeint þrátt fyrir að hafa ekki verið lagðir inn beinlínis vegna Covid-19, svo sem vegna heilablóðfalls sem veiran gæti hafa aukið líkur á.

Bólusetning verndar

Talið er að bólusetningar hafi komið í veg fyrir um 60 þúsund dauðsföll í Bretlandi fram til 11. júlí. Þá hafi þau komið í veg fyrir um 52.600 sjúkrahúsinnlagnir hjá fólki eldra en 65 ára í Bretlandi, þar af um 8.800 innlagnir meðal einstaklinga 65 til 74 ára, 20.300 innlagnir einstaklinga 75 til 84 ára og 23.500 innlagnir 85 ára og eldri. Þetta kemur fram í skýrslu embættis landlæknis í Englandi. Þá er talið að að bólusetningar hafi komið í veg fyrir 21,3-22,9 milljónir smita þar í landi.

Samkvæmt skýrslunni vernda bóluefnin vel gegn alvarlegum veikindum af völdum Covid-19 og ávinningur af þeim meiri en möguleg áhætta vegna aukaverkana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »