Cuomo áreitti ellefu konur kynferðislega

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York., er sagður hafa brotið gegn …
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York., er sagður hafa brotið gegn ellefu konum. AFP

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York-ríkis, áreitti að minnsta kosti ellefu konur kynferðislega að sögn Letitiu James, dómsmálaráðherra ríkisins. Þetta kom fram er hún kynnti niðurstöðu óháðrar rannsóknar á Cuomo og heyrast háværar raddir sem krefjast afsagnar hans og handtöku.

Í skýrslunni, sem var gerð opinber í dag, eru nákvæmar lýsingar ellefu kvenna þar sem þær lýsa ítrekaðri ofbeldisfullri hegðun Cuomos og samstarfsfólks hans, segir James.

Það er ekki ljóst hvort Cuomo verður kærður, en hvort hann verður áfram í embætti er undir honum komið. Það er ljóst að skýrslan sýnir skýrt fram á meinta hegðun hans, segir James.

Fimm mánaða rannsókn James kemst að þeirri niðurstöðu að Cuomo hafi gerst sekur um kynferðislega áreitni gagnvart fjölda kvenna og því brotið alríkislög og lög ríkisins.

Neitar öllum ásökunum

Hún segir að rannsóknin sýni fram á að Cuomo „áreitti kynferðislega núverandi og fyrrverandi starfsmenn sína með óumbeðnum og óleyfilegum snertingum. Þar að auki hafi ummæli hans oft verið með kynferðislegum blæ sem skapaði eitrað andrúmsloft“.

Rannsóknin komst líka að því að Cuomo og samstarfsaðilar hans hefðu reynt að koma í veg fyrir að fyrrverandi starfsmaður hans kæmi fram og segði sína sögu.

Cuomo hefur neitað öllum ásökunum um kynferðislega áreitni og ekki tekið í mál að segja af sér þótt flokksmenn hans og kollegar hafi beðið hann að stíga til hliðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert