Tim Cook seldi bréf í Apple fyrir 95 milljarða

Tim Cook er forstjóri Apple.
Tim Cook er forstjóri Apple. AFP

Tim Cook, forstjóri Apple, hefur selt hlutabréf í félaginu fyrir 750 milljónir Bandaríkjadala síðan hann tók við stöðunni fyrir rétt rúmum 10 árum síðan. Það jafngildir um 95 og hálfum milljarði íslenskra króna.

Cook tók við sem forstjóri Apple árið 2011 þegar Steve Jobs lét af störfum. Umbunin hans hefur aðallega verið í formi hlutabréfa en hann hefur fengið ríflega fimm milljónir hluta í félaginu á síðustu árum og selt flesta þeirra.

Apple hefur enda margfaldað markaðsvirði sitt síðan Cook tók við en hækkunin nemur um 1.200% og markaðsvirði fyrirtækisins stendur í um 316 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Árið 2015 greindi Cook frá því að hann hygðist gefa öll auðævi sín til góðgerðarmála í lifanda lífi. Forbes metur eignir hans á ríflega 190 milljarða króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert