Opinbera rannsóknargögn um árásirnar á tvíburaturnana

Joe Biden hefur með forsetatilskipun aflétt leynd yfir rannsóknargögnum FBI …
Joe Biden hefur með forsetatilskipun aflétt leynd yfir rannsóknargögnum FBI á hryðjuverkaárásunum 11. september 2001. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti ætlar að opinbera rannsóknargögn FBI um hryðjuverkaárásirnar sem gerðar voru hinn 11. september árið 2001. Leynd yfir gögnunum verður aflétt í skömmtum næsta hálfa árið og verða öll gögn opinberuð nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Aðstandendur hafa beitt þrýstingi 

Bandaríkjaþing og fjölskyldur fórnarlambanna hafa þrýst á Biden að aflétta leynd yfir rannsóknargögnunum þar sem fjölskyldurnar standa margar hverjar í málaferlum við stjórnvöld í Sádi Arabíu.

„Bandaríska þjóðin á skilið að fá að sjá skýrari mynd af því hvað stjórnvöld vita um þessar árásir nú þegar tæplega 20 ár eru liðin frá atburðunum,“ sagði Biden í forsetatilskipun á föstudag. 

Hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana 11. september 2001.
Hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana 11. september 2001. AFP

Gegnsæið vegur þyngra

Þar segir Biden að opinberun gagnanna geti ógnað þjóðaröryggi og möguleikum að geta varist árásum í framtíðinni. Gegnsæi vegi þó þyngra. Fjölskyldur fórnarlamba hafa lengi þrýst á stjórnvöld að aflétta leynd yfirgögnunum vegna málaferla. 

Hinn 11. september næstkomandi verða 20 ár liðin frá því að hryðjuverkamenn með tengsl við hryðjuverkasamtökin Al-Qaida gerðu árás á Bandaríkin. Flugvélum var flogið á tvíburaturnana í New York borg og varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna Í Washington, Pentagon. 

mbl.is