Mun funda með Biden um Aukus-bandalagið

Emmanuel Macron forseti Frakklands ræðir við ráðgjafa sinn.
Emmanuel Macron forseti Frakklands ræðir við ráðgjafa sinn. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti mun ræða við Joe Biden Bandaríkjaforseta um Aukus-bandalagið bráðlega, en ráðherrar hans eru öskuillir út í aðildarríki bandalagsins yfir því hvernig mál hafa þróast. 

Aðdragandinn er sá að Bretar, Bandaríkjamenn og Ástralir gengust í varnarbandalag sem rifti samningum Ástrala við Frakka um kaup á kafbátum. Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, sakaði ríkin um tvískinnung og trúnaðarbrest.

Mæta auknum umsvifum Kína

Með veru sinni í Aukus-bandalaginu fær Ástralía tækni til þess að starfrækja kjarnorkukafbáta. Þannig mun Ástralía geta mæta auknum umsvifum Kína við strendur Ástralíu. 

„Við kölluðum heim sendiherra í Ástralíu og Bandaríkjunum til að meta stöðuna. Hvað varðar Bretland teljum við það óþarft. Við þekkjum endalausa tækifærismennsku þeirra,“ sagði Le Drian og lýsti Bretum sem þriðja hjólinu í bandalaginu.

Macron mun funda með Joe Biden forseta Bandaríkjanna á næstu dögum um málið að ósk Biden. Þar verður óskað eftir skýringum á framferði Ástrala og Bandaríkjamanna í þessu ferli.

Utanríkisráðherra Bretlands sagði bandalagið sýna fram á vilja Breta til þess að gæta hagsmuna ríkisins í alþjóðlegu samhengi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert