Framkvæmdi þungunarrof þrátt fyrir bann

Mótmælendur komu saman í Texas eftir að lögin tóku gildi, …
Mótmælendur komu saman í Texas eftir að lögin tóku gildi, en þau eru ákaflega umdeild. AFP

Læknir í Texas hefur tilkynnt að hann hafi framið þungunarrof á konu sem komin var meira en sex vikur á leið. Með þessu braut hann vísvitandi nýsamþykkt lög fylkisins, sem tóku gildi þann 1. september og banna þungunarrof eftir sjöttu viku meðgöngu.

Konur eru oft ekki orðnar meðvitaðar um óléttu sína eftir sex vikur og því ljóst að þessi lög setja þungunarrofum afar þröngar skorður.

Um er að ræða algert, ófrávíkjanlegt bann, sem tekur ekki tillit til þess þó kona hafi orðið barnshafandi fyrir tilstilli nauðgunar. 

Vill láta reyna á stjórnskipulegt gildi

Læknirinn sem um ræðir heitir Alan Braid og hefur hann starfað sem læknir í 50 ár. Hann segist hafa framið aðgerðina vegna þess að honum sé umhugað um skjólstæðinga sína.

Þar að auki vilji hann leggja sitt af mörkum til þess að Texas komist ekki upp með svo íþyngjandi lagasetningu, án þess að úrskurður fáist um hvort hún samræmist stjórnarskránni.

Hann segist átta sig á því að hann kunni að þurfa að horfast í augu við lagalegar afleiðingar þess en búið er að gefa út kæru á hendur honum.

Fordæmi æðsta dómstóls Bandaríkjanna

Æðsti dómstóll Bandaríkjanna hefur áður sagt, í máli Roe gegn Wade, árið 1979, að þungunarrof sé leyfilegt svo lengi sem fóstrið er ekki orðið nógu þroskað til þess að geta lifað utan himnunnar. Það á almennt ekki við fyrr en á tuttugustu og annarri viku meðgöngu.

Nýju lögin í Texas komust í gegnum dómstólinn með fimm atkvæðum á móti fjórum, en það var eftir að Donald Trump hafði skipað þrjá nýja dómara sem komu úr röðum repúblikana.

Það hefur ekki enn reynt efnislega á álitaefni sem þetta fyrir dómstólnum, eftir að dómurinn Roe gegn Wade féll 1979. 

Þann 1. desember næstkomandi mun dómstóllinn þó taka fyrir mál sem varðar þungunarrofsbann Mississippi, sem miðast við fimmtándu viku meðgöngu. Þá kemur í ljós hvort vikið verði frá fyrra fordæmi eða það styrkt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina