Drottningin tognuð í baki og tekur sér hlé

Elísabet Bretlandsdrottning.
Elísabet Bretlandsdrottning. AFP

Elísabet II Bretlandsdrottning tognaði nýverið í baki og mun því missa af minningarathöfn til heiðurs föllnum hermönnum, sem fram átti að fara í dag. Það hefði verið hennar fyrsta opinbera verkefni síðan hún tók sér stutt hlé frá störfum að læknisráði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Buckingham-höll.

Í frétt AFP um málið segir að minningarathöfnin árlega sé drottningunni mikið hjartans mál og því valdi það áhyggjum að hún skuli ekki geta verið viðstödd vegna heilsuleysis.

Karl og Vilhjálmur hlaupa í skarðið

Drottningin, sem orðin er hálftíræð, átti að koma fram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, sem lauk í gær, en henni var ráðið frá því af læknum. Það var eftir að hún kom aftur til starfa eftir stutt hlé.

„Hafandi tognað í baki hefur drottningin ákveðið, með miklum trega, að hún geti ekki verið viðstödd minningarathöfnina við grafreit fallinna hermanna,“ sagði í tilkynningu hallarinnar.

„Hennar hátign er vonsvikin yfir því að missa af athöfninni,“ sagði enn fremur.

Í hennar stað verður Karl Bretaprins viðstaddur athöfnina og mun hann leggja blómsveig að minnisvarða um fallna breska hermenn.

Það voru enda Karl og sonur hans Vilhjálmur prins sem hlupu í skarðið fyrir drottninguna á ráðstefnunni, sem lauk í gær, og héldu erindi fyrir hönd bresku konungsfjölskyldunnar.

mbl.is