Mögulegt að hermenn hafi aðstoðað flóttamenn

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, segir það mögulegt að hermenn hans …
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, segir það mögulegt að hermenn hans hafi aðstoðað fólk við að fara yfir landamæri Póllands. AFP

Alexander Lúka­sj­en­kó forseti Hvíta-Rússlands hefur viðurkennt að mögulegt sé að hermenn ríkisins hafi aðstoðað flóttamenn við að fara yfir landamæri Póllands. Hann tekur þó fyrir þær ásakanir að hann hafi boðið flóttamönnum að landamærunum í þeim tilgangi að skapa ófrið.

Þetta kom fram í einkaviðtali BBC við forsetann sem fór fram í forsetahöllinni í Minsk.

„Ég sagði [Evrópusambandinu] að ég myndi ekki kyrrsetja farandfólk á landamærunum, halda þeim við landamærin, og ef þau halda áfram að koma mun ég ekki stoppa þau, því þau eru ekki að koma í mitt land, þau eru að koma til ykkar,“ sagði Lúkasjenkó í viðtalinu.

Hann hefur þó þvertekið fyrir það að flóttamönnunum hafi verið boðið að koma í þeim tilgangi að kynda undir ófrið við landamærin. „Og í hreinskilni sagt, þá vil ég ekki að þeir fari í gegnum Hvíta-Rússland.“

Talinn hafa skapað ástandið við landamærin

Samskipti Hvíta-Rússlands við ESB hafa verið stirð frá því að Lúkasjenkó lýsti yfir sigri í forsetakosningunum á síðasta ári en flest Evrópuríki hafa dregið lögmæti þeirra í efa. Lúkasjenkó hefur gegnt embætti forseta frá árinu 1994.

Lúka­sj­en­kó hefur verið sakaður um það að beina flóttamönnum yfir til Póllands, Litháen og Lettlands á síðustu mánuðum, til að ógna stöðugleika í ESB og hefna fyrir refsiaðgerðir sambandsins. Er hann talinn hafa skapað flóttamannakreppuna sem orðið hefur við landamæri Póllands þar sem þúsundir flóttamanna, aðallega frá Írak og Sýrlandi, hafa verið á vergangi. 

Í gær bárust aftur á móti þau tíðindi að flóttamannabúðirnar við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands væru tómar og að búið væri að flytja fólkið í upphitað vöruhús, nokkur hundruð metrum frá. 

Flóttamennirnir voru fluttir í vöruhús nálægt landamærunum í gær.
Flóttamennirnir voru fluttir í vöruhús nálægt landamærunum í gær. AFP

Viðurkenndi að mótmælendur hefðu verið barðir

Í kjölfar kosninganna á síðasta ári fóru fram friðsæl fjöldamótmæli í Hvíta-Rússlandi. Í viðtalinu viðurkenndi forsetinn að mótmælendur hefðu verið barðir en hann benti einnig á að lögreglufólk hefði einnig lent í barsmíðum þar. Hefðu fjölmiðlar ekki beint sjónum sínum að því.

Þá sparaði forsetinn ekki stóru orðin þegar hann var spurður út í þau 270 frjálsu félagasamtökunum sem hann hafði lokað.

„Við munum eyðileggja allan þann skít sem að [Vesturlöndin] hafa fjármagnað. Ó eruð þið í uppnámi með að við höfum eyðilagt innviði ykkar? Frjálsu félagasamtökin ykkar, eða hvað það nú er sem þið hafið verið að borga fyrir.“

mbl.is