Viðvörun Moderna veldur áhyggjum

Moderna-bóluefnið heitir Spikevax og hefur meðal annars verið nota í …
Moderna-bóluefnið heitir Spikevax og hefur meðal annars verið nota í örvunarskammta síðustu misseri. AFP

Verð á hlutabréfum og olíu tók aftur dýfu í dag eftir að forstjóri Moderna varaði við því að bóluefni lyfjaframleiðandans við kórónuveirunni veiti mögulega ekki næga vörn gegn nýja afbrigði kórónuveirunnar, Ómíkron.

Ætti að skýrast á næstu tveimur vikum

„Það er mjög ólíklegt að bóluefnið virki jafn vel gegn nýja afbrigðinu eins og það gerði gegn Delta,“ segir Stéphane Bancel, í samtali við Financial Times.

„Ég veit ekki hve lengi við þurfum að bíða eftir gögnum um það en allir vísindamenn sem ég hef talað við hafa verið mjög svartsýnir,“ bætti hún við.

Gagnsemi bóluefnisins við nýja afbrigðinu ætti þó að skýrast á næstu tveimur vikum og tekið gæti tvo mánuði að byrja dreifa nýjum örvunarskammti sem veita á betri vörn, að því er Bancel greindi frá í samtali við CNBC.

Óvissan um hið nýja afbrigði hefur valdið áhyggjum á heimsvísu, þar sem lokun landamæra varpar skugga á upphaf efnahagsbata eftir heimsfaraldur síðastliðinna tveggja ára, að því er Reuters greinir frá.

Í kjölfar fyrstu frétta af Ómíkron hefur virði alþjóðlegra hlutabréfa fallið um tvo milljarða bandaríkjadala. Nokkur ró virtist þó vera komin á markaðinn aftur í þessari viku meðan fjárfestar bíða frekari upplýsinga um nýja afbrigðið.

Ummæli bandaríkjaforseta róar fjárfesta

Ummæli Joe Biden, Bandaríkjaforseta, um að landamærum Bandaríkjanna yrði ekki lokað á ný, þrátt fyrir fréttir af nýju afbrigði, hafa einnig hjálpað til við að róa fjárfesta.

Biden hefur þó kallað eftir víðtækari bólusetningum í landinu og smitsjúkdómaeftirlit Bandaríkjanna hvatt alla 18 ára og eldri til þess að þiggja örvunarskammt af bóluefni gegn veirunni. Bretar hafa einnig ráðist í átak í bólusetningum af ótta við áhrif Ómíkron.

Frá því fyrstu tilfelli Ómíkron-afbrigðis veirunnar greindust í Suður-Afríku 24. nóvember síðastliðin hefur afbrigðinu tekist að breiðast út til fjölda landa, þ.á.m. til Bretlands, Tékklands, Hollands, Kanada og Ástralíu. Þá greindist fyrsta tilfellið í Japan, einu stærsta hagkerfi heimsins, í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert