Gengi hlutabréfa hefur tekið við sér á ný

Gengi hlutabréfa hefur hækkað á ný eftir að hafa lækkað …
Gengi hlutabréfa hefur hækkað á ný eftir að hafa lækkað fyrir helgi. AFP

Gengi hlutabréfa hefur aftur tekið við sér eftir að markaðurinn tók dýfu fyrir helgi í kjölfar frétta af nýju afbrigði kórónuveirunnar, Ómíkron.

Hlutabréfavísitölur í Frankfurt, London og París hækkuðu allar eftir að hafa lækkað um 4% á föstudag.

Á Wall Street hækkuðu þrjár helstu vísitölurnar um ríflega eitt prósentustig í morgun, eftir að hafa lækkað um tvö prósentustig á föstudag.

Ferðatakmarkanir vegna Ómíkron valda áhyggjum

Ómíkron-afbrigðið hefur valdið miklum áhyggjum víða um heim en í morgun sagði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin að alþjóðasamfélaginu stafaði mikil hætta af afbrigðinu. Þá hafa mörg lönd gripið til hertari aðgerða við landamæri, meðal annars Bandaríkin, Bretland, Ísland og ríki Evrópusambandsins.

Ferðatakmarkanir og mögulegar samkomutakmarkanir vegna afbrigðisins hafa valdið miklum áhyggjum fjárfesta og tók markaðurinn dýfu fyrir helgi.

Áhyggjur mildaðar

Enn hefur vísindamönnum þó ekki tekist að sanna að Ómíkron sé hættulegra eða meira smitandi en önnur afbrigði.

Þá voru áhyggjur fjárfesta einnig mildaðar þegar suðurafríski læknirinn, sem greindi fyrsta tilfelli Ómíkron-afbrigðisins, sagði að sjúklingarnir sýndu væg einkenni og hefðu náð fullum bata án þess að leggjast inn á spítala.

Lyfjafyrirtækið Moderna hefur einnig gefið út yfirlýsingu þess efnis að það muni þróa örvunarskammt gegn Ómíkron-afbrigðinu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK