300 milljarða evra aðgerðir til höfuðs Kínverjum

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti verkefnið á …
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti verkefnið á blaðamannafundi í Brussel í dag. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í dag að ESB muni verja um 300 milljörðum evra, sem jafngildir um 44.000 milljörðum kr., í innviðafjárfestingar víða um heim, bæði í tengslum við opinberar framkvæmdir sem og einkaframkvæmdir. Litið er að þetta sem leið ESB til að svara alþjóðlegu fjárfestingarverkefni Kínverja, sem nefnist Belti og braut.

Í yfirlýsingu sem framkvæmdastjórn ESB sendi frá sér segir að verkefnið, sem nefnist á ensku Global Gateway, sem má útleggja á íslensku sem Hið alþjóðlega hlið, standi frá 2021-2027. Markmiðið sé að nýta auðlindir ESB, aðildarríkjanna, evrópskra fjármálastofnana og fjármálstofnana á landsvísu sem vinni að þróun og uppbyggingu.

Þeir sem þekkja til verkefnsins segja að markmiðið sé að leggja fram heildsteyptar hugmyndir er varða orku-, samgöngu- og loftslagsmál sem og þróun stafrænnar tækni, að því er kemur fram í erlendum fjölmiðlum.

Litið er að aðgerðir ESB til að mæta áhrifum Kínverja í Afríku og víða um heim.

Heildaráætlunin er útlistuð á 14 blaðsíðum og þar verður ekki nefnt sérstaklega að verkefnið sé gert til að mæta kínverskum áhrifum víða um heim, en framkvæmdastjórn ESB gætti sig vel á því að nefna aldrei Kína á nafn þegar hún var spurð út í áætlunina í gær.

Haft er eftir Andrew Small, sem starfar hjá bandarísku hugveitunni German Marshall Fund, að þetta fari ekkert á milli mála. „Hið alþjóðlega hlið væri ekki til ef við værum ekki þegar með Belti og braut.“

Small segir að þetta sé í fyrsta sinn sem ESB leggi sig raunverulega fram við að setja saman aðgerðarpakka og bjóða upp á fjármálaleiðir svo ríki sem eru að íhuga að slá lán hjá Kínverjum hafi annað val.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina