Findsen neitar „sturluðum“ ásökunum

Lars Findsen.
Lars Findsen. AFP

Lars Findsen, yfirmaður dönsku leyniþjónustunnar, hefur setið á bak við lás og slá í rúman mánuð eftir að hafa verið sakaður um að hafa lekið ríkisleyndarmálum. Danskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Findsen hafi verið handtekinn og ákærður í málinu í lok síðasta árs. Findsen segir að ásakanirnar séu „sturlaðar“.

Dönsk yfirvöld höfðu greint frá því í desember að fjórir núverandi og fyrrverandi starfsmenn danskra leyniþjónustustofnana hefðu verið handteknir. Það var ekki þó fyrr en í gær að greint var frá því að Findsen væri einn þeirra er hann mætti fyrir dómara.

Vitnaleiðslur fóru fram fyrir luktum dyrum í gær og þar ákvað dómarinn að aflétta banni við því að greint yrði opinberlega frá nafni Findsen að því er danska ríkisútvarpið greinir frá. 

„Ég vil að ákærurnar komi fram og ég neita sök. Þetta er algjörlega sturlað,“ sagði Findsen við fréttamenn. 

Búið er að sleppa öllum mönnunum sem voru handteknir í tengslum við málið nema Findsen. Að sögn danskra fjölmiðla snýst málið um leka á háleynilegum og viðkvæmum upplýsingum. 

Danska ríkisútvarpsið segir að Findsen hafi verið handtekinn á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn 8. desember. Hann var í kjölfarið ákærður fyrir að leka ríkisleyndarmálum en það varðar landráð og verði hann fundinn sekur gæti hann átt 12 ára fangelsi yfir höfði sér. 

Ákæran hefur ekki verið birt opinberlega og ekki liggur nákvæmlega fyrir hvaða leyndarmálum Findsen átti að hafa lekið. 

Findsen hefur stýrt dönsku leyniþjónustunni frá 2015, og innlendu leyniþjónustunni milli 2002 og 2007. Málið gegn honum hefur verið sagt vera án allra fordæma. 

mbl.is

Bloggað um fréttina