Nú þegar yfir tveir sólarhringar eru liðnir frá hinni risavöxnu sprengingu við Tonga hafa fyrstu gervihnattamyndirnar af umbrotasvæðinu verið birtar en gosið er eitt kraftmesta eldgos sem orðið hefur í seinni tíð.
Þetta kemur fram á síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands á Facebook, sem haldið er úti af sérfræðingum.
Þar segir að eyjan, sem áður myndaði hæsta punkt neðansjávareldstöðvarinnar, sé nú að nær öllu leyti horfin.
Einungis leifar af klettum nyrst og vestast virðast enn standa. Þetta sýnir mynd úr hinu evrópska Pleiades-gervitungli sem fór yfir svæðið í gær.
Enn er óljóst hvað nákvæmlega olli þessari gífurlegu sprengingu og hafnarbylgjunni sem fylgdi í kjölfarið. Nokkrar skýringar koma til greina, m.a. skyndilegt öskjuhrun (e. caldera collapse) eða gríðarmikil sprenging undir yfirborði sjávar.