Sameinuðu þjóðirnar fordæma árásirnar í Jemen

Viðbragðsaðilar koma særðum til bjargar eftir loftárásir Sáda í jemenska …
Viðbragðsaðilar koma særðum til bjargar eftir loftárásir Sáda í jemenska bænum Hodeida. Þrjú börn létust í árásunum. AFP

Sameinuðu þjóðirnar fordæma loftárás sem gerð var á fangelsi í jemensku borginni Saada í gær með þeim afleiðingum að minnst 70 létust.

Sádi-Arabía hefur leitt bandalag sem berst gegn uppreisnarhermönnum í Jemen en segist þó ekki bera ábyrgð á árásinni.

Skömmu áður en árásin í Saada var gerð fóru Sádar fyrir loftárás í bænum Hodeida og hafa þeir lýst yfir ábyrgð á árásinni ásamt Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þrjú börn, sem léku sér í fótbolta skammt frá, féllu í árásinni.

Í frétt BBC segir að Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hafi biðlað til stríðandi fylkinga að slíðra sverðin.

Fangelsið í Saada er rústir einar eftir árásirnar í gær. …
Fangelsið í Saada er rústir einar eftir árásirnar í gær. Minnst 70 eru látnir og óttast er að tala látinna hækki. AFP

Skipst á þungum höggum

Uppreisnarhermenn í Jemen gerðu loftárás á Sameinuðu arabísku furstadæmin fyrir sex dögum þar sem fimm létust og var árásin á Hodeida gerð í kjölfar þess. Ekkert aðgengi að internetinu var í Jemen vegna árásarinnar á Hodeida þar sem hún hæfði fjarskiptastöð í bænum.

Í frétt BBC um málið segir að Sádar hafi farið fyrir bandalagi sem berst gegn jemenskum uppreisnarhermönnum síðan árið 2015. Borgarastyrjöld braust út í landinu ári áður. Frá árinu 2015 hafa Sádar og bandamenn þeirra orðið tugþúsundum að bana, þar af um tíu þúsund börnum.

Milljónir hafa þurft að flýja heimili sín og hungursneyð og algjör mannúðarkrísa hafa ríkt í kjölfar styrjaldarinnar.

Eins og áður sagði er talið að minnst 70 manns hafi látist í árásinni á fangelsið í Saada, árásinni sem enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á. Saada er yfirráðasvæði uppreisnarhermanna sem hafa birt myndbönd af því þegar viðbragðsaðilar drógu limlest lík út úr rústum fangelsisins og söfnuðu saman í haug fyrir utan veggi þess.

„Það er mikill fjöldi látinna enn á vettvangi og margra er saknað,“ sagði Ahmed Mahat, leiðtogi Lækna án landamæra í Jemen, við AFP. „Það er ómögulegt að segja til um nákvæmlega hver margir eru látnir. Þetta virðist hafa verið hryllilegt grimmdarverk.“

mbl.is