Boða frekari afléttingar við landamærin

Boris Johnson hefur verið gagnrýndur fyrir að fara of geist …
Boris Johnson hefur verið gagnrýndur fyrir að fara of geist í afléttingar undanfarna daga. AFP

Fullbólusettir ferðalangar munu brátt ekki þurfa að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr Covid-prófi við komuna til Englands. Bresk yfirvöld hafa undanfarna daga verið að aflétta sóttvarnaðgerðum innanlands samhliða því sem fjöldi smita lækkar. 

Undanfarna mánuði hafa yfirvöld krafið farþega frá flestum löndum að taka Covid-hraðpróf innan tveggja daga frá komunni til landsins. Nær skyldan bæði til Breta jafnt sem annarra ferðalanga sem koma frá löndunum.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands tilkynnti í síðustu viku að umfangsmiklar afléttingar innanlands væru í vændum þar sem síðasta bylgja sem drifin var áfram að Ómíkron-smitum, er nú á niðurleið. Ekki munu þó allir njóta góðs af nýju reglunum en afléttingarnar munu einungis standa þeim til boða sem eru fullbólusettir.

Núverandi fyrirkomulag kosti ferðaþjónustuna

Til marks um það að Bretar eru að opna landið verða ferðalangar ekki lengur krafðir um að taka Covid-próf hafi þeir verið fullbólusettir, sagði Johnson við blaðamenn. Hann tók þó ekki fram hvaða dag þessi aflétting myndi taka gildi.

Ekki er víst að afléttingin muni taka gildi í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi en bresk yfirvöld setja eingöngu reglur um sóttvarnaaðgerðir í Englandi. 

Johnson sagði núverandi fyrirkomulag setja miklar hömlur á ferðaþjónustuna og kosta hana gríðarlegar fjárhæðir en á sama tíma væru þær ekki að skila miklum árangri í að hemja útbreiðslu smita.

Ekki eru allir sammála nálgun Johnson og hafa gagnrýnt hann fyrir að fara heldur geist í að aflétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert