Laumufarþegi lifði af flug í hjólarými flugvélar

Maðurinn fannst í hjólarými vélarinnar.
Maðurinn fannst í hjólarými vélarinnar. AFP

Hollenska lögreglan segist hafa fundið laumufarþega í hjólarými flugvélar sem lenti á Schiphol-flugvelli í Amsterdam í Hollandi. Kemur fram í frétt BBC að það þyki merkilegt að maðurinn hafi lifað ferðalagið af.

Flugvélin kom frá Jóhannesarborg í Suður-Afríku en flug þaðan til Amsterdam tekur almennt um 11 klukkustundir. Á leiðinni til Amsterdam stoppaði vélín í Naíróbí í Kenía. Ekki er vitað hvort maðurinn fór um borð í flugvélina í Suður-Afríku eða í Kenía.

Óvanalegt að lifa af svona langa ferð

Það er mjög óvanalegt að laumufarþegar lifi af svo langa ferð enda mjög kalt og lítill súrefnisstyrkur í svo mikilli hæð.

Ekki er vitað hversu gamall maðurinn er eða af hvaða þjóðerni.

„Maðurinn fannst á lífi í hjólarými vélarinnar og var fluttur á sjúkrahús í stöðugu ástandi,“ sagði Joanna Helmonds, talsmaður konunglega hollensku herlögreglunnar, við AFP-fréttastofuna.

„Það er alveg merkilegt að maðurinn skuli enn vera á lífi,“ sagði hún.

Talsmaður vöruflutningafyrirtækisins Cargolux staðfesti í tölvupósti til Reuters-fréttastofunnar að laumufarþeginn hefði verið í flugi á vegum Cargolux Italia.

mbl.is