Árás á rússneska sendiráðið í Dublin

Frá Dublin, höfuðborg Írlands.
Frá Dublin, höfuðborg Írlands. Wikipedia/Robzle

Einn maður hefur verið handtekinn eftir að vörubíl var keyrt í gegnum hlið rússneska sendiráðsins í borginni um hálf tvö leytið í dag, samkvæmt upplýsingum frá írsku lögreglunni. Mótmæli hafa verið fyrir utan sendiráðið undanfarna daga. Lögreglan segir að maðurinn hafi verið handtekinn og færður á Rathfarnham Garda lögreglustöðina í Dublin og að enn sé verið að rannsaka málið.

Myndskeið frá atburðinum hefur farið víða á samskiptamiðlum í dag. Ekki var minnst á að neinn hefði særst við atburðinn í dag, en athygli vakti að trukkurinn var merktur birgðafyrirtæki fyrir kaþólsku kirkjuna.

Myndbandið á youtube

Í síðustu viku skvetti kaþólskur prestur rauðri málningu á hlið rússneska sendiráðsins í Dublin á meðan hann var í viðtali í beinni útsendingu hjá írska ríkisútvarpinu. Forsætisráðherra Íra, Micheál Martin, hefur fengið fjölda símtala frá stjórnarandstöðunni um að reka rússneska sendiherrann úr landi eftir innrásina í Úkraínu. Hann hefur sagt það ekki ráðlegt, því það gæti hamlað möguleikum írskra stjórnvalda að aðstoða borgara sína sem eru erlendis.

Frakkar fengu símtal frá Rússum í dag þar sem beðið var um vörn fyrir sendiráðið, eftir að mólótov-kokkteil var kastað að vísinda- og menningasetri rússnesks sendiráðsins í París í dag. „Sprengjan olli litlum skemmdum og enginn slasaðist,“ var haft eftir frönsku lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert