„Ég skammast mín“

Rússneski herinn í Úkraínu að morgni 26. febrúar sl.
Rússneski herinn í Úkraínu að morgni 26. febrúar sl. AFP

Ónafngreindur rússneskur hermaður sem er á valdi Úkraínumanna hélt magnaða ræðu á Twitter í dag þar sem hann lýsir afstöðu sinni til stríðsins í Úkraínu. Þar velti hann upp ýmsum hliðum og biðlaði til rússneskra hermanna í Úkraínu um að sýna mildi og standa upp gegn yfirmönnum sínum. 

Myndbandið á Twitter

„Okkur var sagt að Úkraína væri á valdi fasistastjórnar, þjóðernissinna og nasista og að almennir borgarar landsins þyrftu okkar aðstoð til að bjarga þeim undan þessu oki. Í dag veit ég að ég hafði 100% rangt fyrir mér, en ekki dæma mig of hart.“

„Munum við einhvern tíma fá uppreist æru"

Hann heldur áfram og segir að Rússar fái mjög einhliða upplýsingar og það hafi verið erfitt að vita hver raunveruleg staðan hefði verið. Þegar hann hafi heyrt í hnefaleikurum Úkraínu, m.a. borgarstjóra Kænugarðs um að þeir og aðrir myndu berjast  gegn Rússum var hann sleginn. „Ég hef alltaf fylgst með hnefaleikurum frá Úkraínu og Usyk og Lomachenko eru mitt uppáhald. Svo sá ég á vettvangi að almenningur í Úkraínu er tilbúið að berjast og þau sögðu við okkur: „Við viljum ykkur ekki hérna,“ og ég skammaðist mín. Þegar grátandi kona stóð fyrir framan mig, skammaðist ég mín. Ég veit ekki af hverju við erum að þessu. Við komum með sorg til þessa lands. Munum við einhvern tíma fá uppreist æru?“

Rússneskur almenningur er ekki sekur

Hann bætir því við að Rússum muni verða refsað fyrir gjörðir sínar og verða settir í fangelsi og hann geti samþykkt það. En hann sé sorgmæddur fyrir hönd almennings í Rússlandi. „Þau eru ekki sek. Eina sök þeirra er að hafa trúað yfirvöldum sem hafa dreift ósannindum. Margir eru ekki einu sinni nettengdir og hafa enga möguleika að sjá aðrar hliðar. Þau eru heilaþvegin af áróðrinum um að Úkraína sé á valdi fasista. Kannski þurfti ég að læra mína lexíu. Guð minn góður, svo ég gæti loksins séð hvað væri í rauninni að gerast og sagt samlöndum mínum frá því.“

Eyðieyja í samfélagi þjóða

Síðan ávarpaði hann þá Rússa sem eru að horfa á myndbandið: „Ykkur er frjálst að finnast hvað sem ykkur finnst um mig: að ég hafi verið þvingaður til að tala hérna og sé að lesa upp tilbúinn texta, en ég skal segja ykkur sannleikann: Ef einhver réðist inn á mitt heimasvæði myndi ég gera það sama og fólkið hér er að gera og ég væri í rétti til að verja mitt land. Á sama hátt er fólkið í Úkraínu með réttinn sín megin í dag. Þið þurfið að fara gegn yfirmönnum ykkar. Þetta er þjóðarmorð og við erum að drepa almenna borgara.“ Hann heldur áfram og segir að Rússar geti aldrei unnið stríðið í raun og veru. „Við getum hertekið landið, en ekki fólkið. Við værum bara eins og eyðieyja í samfélagi þjóða. Enginn myndi tala við okkur. Og það væri réttlátt! Rússar myndu skammast sín fyrir að vera Rússar. Ég bið ykkur frá innstu hjartarótum: Hættið, áður en það er of seint. Gefið okkur möguleika að komast aftur heim.“

Hann bætir við: „Ég get ekki fundið réttu orðin til að segja úkraínsku þjóðinni hversu sorgmæddur ég er yfir þessari stöðu. Ég vona að það gerist einhvern tíma að við getum haldið áfram þrátt fyrir innrásina, en þið getið það ekki, þá skil ég það líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert