Dæmd í 5 ára fangelsi fyrir að saka barnsföður um misnotkun

Dómur var kveðinn upp í dag.
Dómur var kveðinn upp í dag. AFP

Dómstóll á Spáni hefur dæmt konu í fimm ára fangelsi fyrir að hafa ítrekað lagt fram falsaðar skýrslur, þar sem fram kom að fyrrverandi eiginmaður hennar hefði misnotað dóttur þeirra kynferðislega.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum er um fordæmalausan dóm að ræða á Spáni en ekki er ljóst hvort honum verður áfrýjað.

Í úrskurði, sem kveðinn var upp í borginni Granada, kemur fram að ónafngreind konan hafi verið sakfelld fyrir rangar ásakanir og að hún hafi brugðist ábyrgð sinni sem foreldri.

Hún var dæmd til að greiða dóttur sinni og barnsföður 40.000 evrur hvoru, jafnvirði um 5,5 milljónum íslenskra króna, vegna skaðans sem ásakanir hennar hefðu valdið. Samkvæmt dómi vildi konan hafa fullt forræði yfir dótturinni, sem nú er níu ára gömul.

Konan hafði átta sinnum, yfir tveggja ára tímabil, kvartað yfir barnsföður sínum þar sem hún sakaði hann um áreitni og nauðgun á sama tíma og þau stóðu í skilnaði.

Auk þess fór hún tíu sinnum með dóttur sína til lækna og sálfræðinga. Enginn þeirra fann neitt sem renndi stoðum undir meinta áreitni föðurins. 

Fyrir dómi kom fram að fjöldi skoðana hjá kvensjúkdómalæknum og sálfræðingum hefðu haft áhrif á andlega heilsu stúlkunnar og frammistöðu hennar í skóla.

Konan og maðurinn giftu sig árið 2010 og eignuðust dótturina tveimur árum síðar. Árið 2017 ákváðu þau að fara hvort í sína áttina. Vandræðin hófust ári síðar þegar faðirinn, enskukennari, fór fram á sameiginlegt forræði.

Fyrir dómi kemur að maðurinn hafi hætt að kenna á tímabili og liðið hræðilega.

„Þetta er eins og að vera grafinn lifandi. Reynir að drepa einhvern án þess að snerta viðkomandi, með því að saka mann um það versta sem hægt er að gera; að skaða eigin dóttur,“ sagði maðurinn í samtali við spænska fjölmiðla.

mbl.is