„Það er ekkert pláss fyrir ótta í skólum“

Frá mótmælafundi í Chicago í dag.
Frá mótmælafundi í Chicago í dag. KAMIL KRZACZYNSKI

Tugir þúsunda söfnuðust saman víðsvegar um Bandaríkin í dag til að krefjast strangari skotvopnalöggjafar og aðgerða gegn byssuofbeldi í landinu.

Mótmælendur á öllum aldri streymdu inn í verslunarmiðstöðina National Mall í Washington þar sem voru meira en 45.000 hvítir vasar með blómum, einn fyrir hvert fórnarlamb skotárása í Bandaríkjunum árið 2020, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

„Verndum fólk, ekki byssur,“ stóð á einu skilti sem mótmælandi hélt á. „Það er ekkert pláss fyrir ótta í skólum,“ stóð á öðru.

Samkvæmt byssuöryggishópnum March for Our Lives (MFOL), sem stofnaður var af þeim sem lifðu af skotárásina í Parkland skóla árið 2018, eru um 450 mótmælafundir fyrirhugaðir. Fréttastofa BBC greindi frá þessu.

Aðgerðaleysi drepi Bandaríkjamenn

MFOL sagði að aðgerðaleysi stjórnmálaleiðtoga væri að drepa Bandaríkjamenn.

„Við munum ekki lengur leyfa ykkur að halla ykkur aftur á meðan fólk heldur áfram að deyja,“ sagði Trevor Bosley, stjórnarmaður í MFOL, í yfirlýsingu.

MFOL hefur til að mynda kallað eftir banni árásarvopna, alhliða bakgrunnsathugun fyrir þá sem ætla sér að kaupa byssur og sérstakt leyfiskerfi með skrá yfir byssueigendur í landinu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist styðja mótmælin og hvatti þingið til að samþykkja „skynsamlega löggjöf um byssuöryggi“.

Mótmælin koma í kjölfar tíðra fjöldaskotárása í landinu, þar á meðal skotárásarinnar í grunnskóla í Texas og í stórmarkaði í New York í maí. Mótmælafundir verða meðal annars haldnir í Washington, New York, Los Angeles og Chicago.

Frá mótmælafundi í Chicago í dag.
Frá mótmælafundi í Chicago í dag. KAMIL KRZACZYNSKI
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert