Tveir skotnir til bana í Ósló

Af vettvangi í nótt.
Af vettvangi í nótt. AFP/NTB/Javad PARSA

Að minnsta kosti tveir eru látnir og nokkur fjöldi til viðbótar eru særðir eftir skotárás á skemmtistaðnum London Pub í miðborg Óslóar nú í nótt. 

Lögreglan í Ósló hefur staðfest þetta við norska fjölmiðla, og segir í tilkynningu hennar á Twitter að nokkrir séu alvarlega særðir eftir skotárásina. 

Í frétt norska ríkisútvarpsins NRK kemur fram að fréttamaður þess, Olav Rønneberg, hafi verið sjónarvottur að árásinni. Segist hann hafa séð mann koma að staðnum með poka, sem hann hafi tekið skotvopn úr og byrjað að skjóta. 

Árásin átti sér stað um kl. 1:15 að staðartíma, eða um kl. 23:15 að íslenskum tíma. Hljóp fólk skelkað í burtu frá skotmanninum. 

Lögreglan hefur lokað fyrir aðgang að stóru svæði í kringum skemmtistaðinn og hafa sjónarvottar verið beðnir um að koma saman á hóteli í grenndinni. Þá hefur fólki í nágrenninu verið sagt að halda sig fjarri til að greiða leið sjúkrabíla að vettvangi. 

London Pub, þar sem árásin var gerð, er þekktur sem skemmtistaður fyrir hinsegin fólk. 

Uppfært kl. 1:25: Einn maður er nú í haldi lögreglunnar. Talið er nær öruggt miðað við lýsingar sjónarvotta að hann sé árásarmaðurinn. Er hann talinn hafa verið einn að verki, en lögreglan hefur þó ekki útilokað neitt í þeim efnum.

mbl.is