Sorgleg þróun og hættulegt fordæmi

Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata.
Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata. mbl.is/Hákon

„Þetta er sorgleg þróun og setur hættulegt fordæmi til framtíðar að Svíar og Finnar hafi gengið að skilyrðum Tyrkja,“ segir Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, um þær fregnir að Tyrkir hafi fallist á inngöngu Svía og Finna í NATO. Tyrkir höfðu mótmælt inngöngunni vegna þess að þeir sögðu Svía og Finna skjóta skjóls­húsi yfir kúr­díska her­menn.

„Ég sá samkomulagið í morgun og orðalagið var frekar loðið,“ segir Lenya þegar hún er spurð hvort Svíar og Finnar taki undir áhyggjur Tyrkja af meintum hryðjuverkamönnum í löndunum.

„Mér skilst að Svíar og Finnar séu að taka undir áhyggjur og kröfur Tyrkja að PKK og YPG séu hryðjuverkjamenn. Þau séu að fara í bandalag með Tyrklandi til að berjast gegn svokölluðum hryðjuverkasamtökum,“ segir Lenya.

Sagði Svía og Finna styðja hryðjuverkamenn

Erdogan Tyrklandsforseti hafði áður sagt að Sví­ar og Finn­ar væru ein­fald­lega ekki á „sömu síðu“ í ör­ygg­is­mál­um og styddu hryðju­verka­menn.

Þar vís­aði Er­dog­an fyrst og fremst í af­stöðu þeirra til sjálf­stæðis­hreyf­inga Kúrda, en vænn hluti Kúr­d­ist­ans ligg­ur inn­an landa­mæra Tyrk­lands. Þar er hin vopnaða komm­ún­ista­hreyf­ing PKK Tyrkj­um sér­stak­ur þyrn­ir í aug­um. Ekki þeim ein­um þó, því bæði Evr­ópu­sam­bandið og Banda­rík­in skil­greina PKK sem hryðju­verka­sam­tök. Finn­ar og Sví­ar hafa hins veg­ar veitt mörg­um fé­lög­um í PKK hæli og hafa hafnað framsals­kröf­um Tyrkja á 30 fé­lög­um í PKK.

„Á sama tíma og íslenskir ráðamenn fagna því að fá inn í NATO ríki sem deila sömu lýðræðislegu gildum og við hérna á Íslandi gerum þá má ekki líta fram hjá því að Svíþjóð og Finnland voru að gefa afslátt af prinsippum sínum og mannréttindum fólks sem hafa leitað til þeirra til skjóls,“ segir Lenya og heldur áfram:

„Það voru Kúrdar sem fóru til Svíþjóðar og Finnlands sem hælisleitendur að flýja undan ofsóknum Tyrkja. Núna breytist allt þegar hagsmunir Svíþjóðar og Finnlands eru undir að ganga inn í þetta hernaðarbandalag. Svo finnst mér rosalega sorglegt hvaða vegferð við erum á ef við nýtum ekki aðildina að þessu hernaðarbandalagi til góðs og til að standa vörð um mannréttindi.“

Engin þjóð hreyfir sterkum andmælum

Henni þykja ummæli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi ekki benda til þess að Ísland hafi mótmælt kröfu Tyrkja sterklega á leiðtogafundi NATO-ríkja í Madrid í gær.

„Svíar hafa verið fremsta þjóð í heimi þegar kemur að vopnasölubanni og afvopnunarmálum.  Þeir hafa oft tekið mjög skýra afstöðu á alþjóðavísu, settu til dæmis vopnasölubann á Tyrkland eftir árásir þeirra á svæði kúrda í norðurhluta Sýrlands 2019 en þetta breytist um leið og þeirra hagsmunir eru undir. Mér finnst líka rosalega sorglegt að mér sýnist engin þjóð í NATO taka sterka afstöðu gegn þessum kröfum Tyrkja. Þetta setur hættulegt fordæmi til frambúðar.“

Lenya segir einnig umhugsunarefni að þjóðir taki undir kröfur Tyrkja og það geti verið hættulegt:

„Þeir hafa komist upp með svona fáránlegar kröfur einu sinni og hvað ef einhver önnur lönd sem búa við sömu aðstæður og til að mynda Svíþjóð og Finnland vilja ganga í bandalagið? Hvernig verður þetta þá? Við megum ekki gleyma að þetta er hernaðarbandalag og af hverju þetta var sett á fót. Þetta snýr að sameiginlegum vörnum gegn utanaðkomandi ógn og það er varhugavert að ríki geti ekki rekið sjálfstæða utanríkisstefnu án þess að friðþægja einstaka einræðisherra og aðför þeirra gegn minnihlutahópum"

mbl.is