Trump yfirgaf stjórn eigin fjölmiðlafyrirtækis

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, yfirgaf stjórn eigin fjölmiðlafyrirtækis í síðasta mánuði, nokkrum vikum áður en verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna stefndi fyrirtækinu fyrir dóm.

Samkvæmt opinberu skráningarskjali sem dagsett er 8. júní yfirgáfu Trump og sonur hans Donald Trump yngri stjórn Trump Media & Technology Group (TMTG), auk nokkurra annarra. Félagið rekur meðal annars samfélagsmiðil Trumps, Truth Social.

TMTG er undir rannsókn verðbréfaeftirlitsins, en félagið ætlaði að fara á markað með því að sameinast sérhæfða yfirtökufélaginu (e. SPAC) Digital world sem þegar er skráð á markað vestanhafs. Hefur eftirlitið haft TMTG til skoðunar síðan stuttu eftir að tilkynnt var um að stefnt væri að sameiningu félaganna.

Fyrir um viku síðan stefndi eftirlitið TMTG fyrir dóm, en blaðið Sarasota Herald Tribune í Flórída greindi frá því í gær að Trump eldri og yngri hefðu yfirgefið stjórnina áður en stefnan var gefin út. TMTG hefur hins vegar gefið út að forsetinn fyrrverandi sé enn stjórnarformaður félagsins, en það stangast á við opinberu skjölin sem fjölmiðlar vestanhafs hafa komist yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert