Bandaríkin funduðu með sendiherra Kína

John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins.
John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins. AFP

Hvíta húsið fundaði með sendiherra Kína, Qin Gang, í gær vegna viðbragða Kína við heimsókn Nancy Pelosi, forseta fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, til Taívan.

„Við fordæmum hernaðaræfingar Kína, sem eru óskynsamlegar, þar sem þær fara á skjön við langtíma markmið okkar sem er að viðhalda friði og stöðugleika,“ segir John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, í yfirlýsingu.

Kirby segir að Bandaríkin hafi ekki breytt afstöðu sinni hvað varðar „eitt Kína“ og var sendiherranum gert grein fyrir því. Bandaríkjamenn viðurkenni afstöðu Kína sem felst í því að Taívan sé hluti af þeirra yfirráðasvæði og það velti á Taívan og Kína að finna friðsamlega lausn á deilum þeirra.

Kína hefur haldið því streitulaust fram að Taívan sé hluti af Kína á meðan Taívan er á öndverðri skoðun.

Kirby greindi ekki frá hverjir sóttu fundinn fyrir hönd Bandaríkjanna.

Hernaðaræfingar kínverska hersins standa nú yfir á hafsvæði umhverfis Taívan.
Hernaðaræfingar kínverska hersins standa nú yfir á hafsvæði umhverfis Taívan. AFP
mbl.is