Hugðist skjóta varaforsetann

Ólíklegt er að varaforsetinn hefði lifað af eftir byssukúlu af …
Ólíklegt er að varaforsetinn hefði lifað af eftir byssukúlu af þessu færi en vopnið stóð á sér og tilræðismaðurinn var handtekinn á staðnum. TV Publica/AFP

Hurð skall nærri hælum þegar argentínski varaforsetinn Cristina Fernández de Kirchner steig út úr bifreið sinni fyrir utan heimili sitt í gær. Fögnuðu stuðningsmenn henni þar ákaft en varaforsetinn var á leið heim úr dómþinghaldi í spillingarmáli. Maður nokkur í þvögunni dró þá upp skammbyssu, beindi henni að andliti de Kirchner og tók í gikkinn.

Byssan, sem hlaðin var fimm skotum, stóð hins vegar á sér og ekkert skot hljóp af. Tilræðismaðurinn er 35 ára gamall Brasilíumaður og var hann handtekinn á staðnum. Alberto Fernández Argentínuforseti ávarpaði þjóðina seint í gærkvöldi og fordæmdi tilræðið misheppnaða í ávarpi sínu. Kvað hann atvikið eitt hið alvarlegasta sem upp hefur komið síðan lýðræði komst á að nýju í landinu árið 1983.

Gaf þjóðinni frí í dag

„Við getum verið ósammála, við getum verið mjög ósammála, en hatursorðræða má ekki eiga sér stað vegna þess að hún fæðir af sér ofbeldi og ofbeldi á ekki að eiga sér stað í lýðræði,“ sagði forsetinn í ávarpi sínu og lýsti því um leið yfir að dagurinn í dag skyldi vera frídagur um alla Argentínu svo þjóðin mætti „tjá sig um hvernig vernda beri lífið og lýðræðið auk þess að sýna varaforsetanum okkar samstöðu“.

Tilræðismaðurinn beinir vopni sínu að de Kirchner.
Tilræðismaðurinn beinir vopni sínu að de Kirchner. AFP/Télam

Myndskeið af því þegar tilræðismaðurinn beinir byssunni að höfði de Kirchner og tekur í gikkinn um leið og hún beygir sig niður til að forðast kúluna hafa ítrekað verið sýnd í fréttum í Argentínu síðan í gær. Myndskeið sem gengið hefur um samfélagsmiðla sýnir enn fremur hvernig fólk úr manngrúanum gengur á milli varaforsetans og tilræðismannsins.

Að sögn lögreglu fannst skotvopnið skammt frá staðnum þar sem maðurinn reyndi að hleypa af, skömmu eftir að lögregla hafði handtekið hann.

Buenos Aires Times

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert