Elon Musk bannar fjarvinnu

Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í San Francisco.
Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í San Francisco. AFP/David Odisho

Starfsfólki Twitter mun ekki lengur standa til boða að vinna í fjarvinnu, þrátt fyrir loforð um annað. Elon Musk, nýr eigandi og forstjóri miðilsins, krefst þess nú að starfsfólk sé að minnsta kosti 40 klukkustundir í viku á skrifstofu sinni. 

Einu undantekningarnar á fjarvinnubanninu verða þær sem forstjórinn mun sjálfur veita.

Í tölvupósti til starfsfólksins, þar sem m.a. var tilkynnt um þetta, sagði forstjórinn að auglýsingatekjur miðilsins væru líklega á niðurleið, sökum samdráttar í alþjóðaefnahagskerfinu, og að erfiðir tímar væru framundan. BBC greinir frá.

Neikvætt viðhorf gagnvart fjarvinnu

Stuttlega eftir að heimsfaraldur Covid-19 hófst þurfti að grípa til ráðstafana á miðlinum vegna samkomutakmarkana og var starfsfólki þá boðið að vinna í fjarvinnu. Eftir góða reynslu af því ákváðu stjórnendur fyrirtækisins að bjóða starfsfólki að vinna að heiman „að eilífu“ óskaði það þess.

Viðhorf Musk gagnvart fjarvinnu virðist þó vera heldur neikvæðara. Hefur áður verið haft eftir honum að vegna Covid-samkomutakmarkana standi margir í þeirri trú að þeir þurfi ekki að leggja hart að sér í vinnunni.

Rekið ríflega helming starfsfólks

Musk hefur ekki verið vinsæll meðal starfsmanna Twitter en eftir að hann gekk frá kaupunum á miðlinum hefur hann sagt upp ríflega helmingi starfsmanna, þar á meðal Parag Agrawal, forstjóra þess, og öðrum háttsettum stjórnendum. 

Í kjölfarið hefur hann skipað sjálfan sig sem forstjóra.

mbl.is