Sérfræðingur í stríðsglæpum rannsakar Trump

Bandaríski saksóknarinn Jack Smith fyrir tveimur árum síðan.
Bandaríski saksóknarinn Jack Smith fyrir tveimur árum síðan. AFP/Jerry Lampen

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur ráðið fyrrverandi rannsakanda stríðsglæpa, Jack Smith, sem sérstakan saksóknara í máli gegn Donald Trump, þremur dögum eftir að hann tilkynnti að hann ætlaði að bjóða sig aftur fram í embætti Bandaríkjaforseta.

Trump, sem segir málið snúast um „nornaveiðar“, segir skipun Smith vera „ósanngjarna“ og „mestu mögulegu stjórnmálaafskipti dómskerfisins í okkar landi“.

Hvíta húsið hefur vísað ummælum Trumps harðlega á bug.

Merrick Garland dómsmálaráðherra (í miðjunni) tilkynnir um ráðningu Smith.
Merrick Garland dómsmálaráðherra (í miðjunni) tilkynnir um ráðningu Smith. AFP/Anna Moneymaker/Getty

Á blaðamannafundi tilkynnti dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Merrick Garland, um ráðningu Smith, sem starfaði áður sem yfirsaksóknari stríðsglæpadómstólsins í Haag þar sem hann hefur rannsakað stríðsglæpi í Kósóvó.

Smith mun hafa yfirumsjón með tveimur málum ríkisins gegn Trump. Annað snýst um tilraunir hans til að snúa við úrslitunum í forsetakosningum árið 2020 og árás stuðningsmanna hans á þinghúsið 6. janúar 2021.

Hitt málið snýst um rannsókn á fjölda leynilegra skjala ríkisstjórnarinnar sem fundust þegar bandaríska alríkislögreglan, FBI, réðst inn í húsnæði Trumps, Mar-a-Lago, á Flórída í ágúst.

mbl.is