Rómverskur „gervikeisari“ var til

Sponsian keisari var afskrifaður á 19. öld, hann hefði aldrei …
Sponsian keisari var afskrifaður á 19. öld, hann hefði aldrei verið til, örfáir gullpeningar með mynd hans hefðu verið síðari tíma fölsun. Nú hefur annað komið á daginn, keisarinn rómverski ríkti yfir skattlandinu Transylvaníu. Ljósmynd/Public Library of Science

Nú hefur komið í ljós að Sponsian fyrsti, rómverskur keisari á 3. öld sem skrifaður var út úr sögunni á 19. öld sem fölsun, var í raun til. Eina heimildin um Sponsian, sem sat í Transylvaníu, þar sem nú er Rúmenía, eru fáeinir gullpeningar sem fundust þar á svæðinu árið 1713 og bera mynd hans og nafn.

Einn peninganna barst til Bretlands og var talið að hann væri ósvikinn þar til um miðja 19. öld. Höfðu þá myntfróðir menn komist að þeirri niðurstöðu að peningurinn væri of grófgerður til að vera ekta og væri hann greinilega 18. aldar fölsun.

Náðarhöggið greiddi Henry Cohen, yfirmyntfræðingur Franska þjóðarbókasafnsins, árið 1863 er hann ritaði um peninginn í yfirlitsriti sínu um rómverskar myntir. Kvað hann þar upp þann dóm að ekki aðeins væri peningurinn nútímafölsunarverk heldur væri hann „fáránlega myndskreyttur“. Málinu taldist lokið. Sponsian fyrsti var uppspuni.

Fundu keisara

Paul Pearson, prófessor við University College London, rannsakaði peninginn hins vegar nú nýlega og sagði þá einfaldlega við breska ríkisútvarpið BBC: „Það sem við fundum var keisari. Hann var talinn skáldaður og sérfræðingar höfnuðu tilvist hans. En við teljum að hann hafi verið raunverulegur og átt sér hlutverk í mannkynssögunni.“

Er niðurstaða Pearsons byggð á því er hann gaumgæfði myndir af Sponsian-myntinni við rannsóknir sínar á bók um Rómaveldi hið forna. Kom prófessorinn þá auga á hárfínar rispur á peningnum og dró þá ályktun að hann hefði verið raunveruleg viðskiptamynt, hefði skipt um hendur og átt sér marga eigendur.

Hann ræddi við starfsfólk Hunterian-safnsins við Háskólann í Glasgow í Skotlandi þar sem myntin var í geymslu og óskaði eftir að skoða hana nánar með rannsakendum þar. Leiddi nákvæm smásjárskoðun í ljós yfirborðsrispur sem minntu að öllu leyti á peninga sem oftsinnis hefðu fengið að glamra með öðrum peningjum í pyngjum.

Efnarannsókn leiddi þá í ljós að peningurinn hafði legið í jarðvegi í mörg hundruð ár, ekki aðeins frá því á öndverðri 18. öld. Þessi peningur hafði verið í notkun.

Í útjaðri veldisins

Nú bíður fræðimannanna hins vegar sú verðuga áskorun að leiða í ljós hver Sponsian keisari var í raun. Er það kenning þeirra að hann hafi verið herstjóri í Róm sem glataði völdum sínum og hafi í kjölfarið verið þvingaður til töku keisaradæmis í einum fjarlægasta hundskinnsútnára Rómaveldis, skattlandinu Transylvaníu. 

Kemur þar einkum til skoðunar að Sponsian hafi ríkt í Daciu sem einangraðist frá Rómaveldi árið 260 vegna drepsóttar og borgarastríðs. Hafi Sponsian þá tekið stjórnina þar til regla komst á í Daciu.

„Við teljum að hann hafi stjórnað hernum og verið leiðtogi almennings á meðan svæðið var í einangrun,“ segir Jesper Ericsson, safnvörður safnsins í Glasgow. „Í tilraun til að endurreisa hagkerfið ákváðu íbúarnir að slá sína eigin mynt,“ heldur hann áfram og útskýri það hvers vegna peningarnir höfðu annað yfirbragð en dæmigerð rómversk mynt þess tíma.

Ný sögupersóna komin fram um síðir

Er rannsakendurnir höfðu slegið því föstu að peningurinn væri ósvikinn höfðu þeir samband við rúmenska fræðimenn sem einnig áttu mynt með mynd Sponsians. Hafði sú tilheyrt Habsborgaranum og baróninum Samuel von Brukenthal, ríkisstjóra Transylvaníu á miðöldum.

Hefur breska rannsóknin vakið verðskuldaða athygli í Rúmeníu þar sem einnig hafði verið talið að peningarnir væru sögufölsun.

„Fræðasamfélagið hér fellst á niðurstöðuna sem hefur mikla þýðingu fyrir sögu Transylvaníu og Rúmeníu, en ekki síður Evrópu,“ segir Alexandru Constantin Chitută, forstöðumaður Brukenthal-safnsins í Rúmeníu. „Sú niðurstaða táknar að við getum bætt nýrri sögulega þýðingarmikilli persónu við sögu okkar.“

BBC

The Guardian

Ancient Origins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert