Átta og hálft ár fyrir að gagnrýna hernað Rússa

Ílja Jasjín í dómsalnum í morgun.
Ílja Jasjín í dómsalnum í morgun. AFP/Júrí Kotsjetkov

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Ílja Jasjín hefur verið dæmdur í átta og hálfs árs fangelsi fyrir að gagnrýna hernað Rússa í Úkraínu.

Héraðsdómari í Moskvu sagði að Jasjín muni afplána dóminn á fanganýlendu. Hann hefur tíu daga til að áfrýja, að sögn blaðamanns AFP-fréttastofunnar sem var í dómsalnum.

Alexei Navalní í febrúar í fyrra.
Alexei Navalní í febrúar í fyrra. AFP/Kíríl Kúdrjavtsev

Stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní, sem var fyrr á árinu dæmdur í níu ára fangelsi fyrir fjárdrátt, segir dóminn skammarlegan.

„Þessi enn eini skammarlegi úrskurðurinn án lagastoðar hjá Pútín [Rússlandsforseta] mun ekki þagga niður í Ílja og hann ætti ekki að hræða heiðvirt fólk í Rússlandi. Þetta er enn ein ástæðan fyrir því að við verðum að berjast og ég er ekki í vafa um að við berum á endanum sigur úr býtum,“ skrifaði Navalní á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert