Bankastarfsmaður pissaði á sessunaut sinn

Flugfélagið Air India ætlar að tryggja að þetta komi ekki …
Flugfélagið Air India ætlar að tryggja að þetta komi ekki fyrir aftur. AFP

Maður úr framkvæmdastjórn bankans Wells Fargo, hefur verið handtekinn, en hann er borinn þeim sökum að hafa pissað á sessunaut sinn, um borð í flugvél. Lögregla rannsakar málið. 

Atvikið átti sér stað í nóvember um borð í flugvél Air India. Maðurinn sem um ræðir heitir Shankar Mishra og var fyrir skömmu hátt settur innan bankans í Indlandi.

Honum hefur verið sagt upp störfum, en í tilkynningu frá Wells Fargo segir að sú ákvörðun hafi verið tekin eftir að í ljós komu „afar truflandi“ ásakanir á hendur honum. 

Mishra er sagður hafa verið undir áhrifum áfengis í flugferðinni frá New York í Bandaríkjunum, til Delí á Indlandi. Hann var í fyrsta farrými og sat þar við hlið 72 ára konu.

Á hann að hafa rennt niður buxnaklaufinni og haft þvaglát á konuna. 

Ófullnægjandi viðbrögð flugfélagsins

Flugfélagið hefur lýst því yfir að fyrirtækið hefði átt að bregðast betur við, bæði um borð í flugvélinni og í framhaldinu, en konan kvartaði samstundis, án fullnægjandi viðbragða af hálfu flugfélagsins og leitaði því næst til lögreglu.  

Air India kveðst líta atvikið alvarlegum augum og nú verði það skoðað sérstaklega, auk þess sem gripið verði til aðgerða til að tryggja að sambærileg atburðarás eigi sér ekki stað aftur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert