Sungu í þingsal til að mótmæla ráðherra

Elisabeth Borne nýtti 43. grein frönsku stjórnarskrárnar til þess að …
Elisabeth Borne nýtti 43. grein frönsku stjórnarskrárnar til þess að þvinga frumvarp um hækkun eftirlaunaaldurs í gegn um franska þingið. AFP

Elisabeth Borne, forsætisráðherra Frakklands, tilkynnti á franska þinginu í dag að ríkisstjórnin myndi þvinga umdeildu frumvarpi í lög án atkvæðagreiðslu þingsins. Ákvörðunin fékk afar slæmar viðtökur. Púað var á forsætisráðherra og þjóðsöngurinn sunginn.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, kynnti frumvarpið, sem myndi hækka eftirlaunaaldur í landinu úr 62 ára aldri í 64 ára. Frumvarpið hefur verið afar umdeild og leitt til verkfalla og mótmæla í landinu seinustu mánuði.

Stór mótmæli hafa verið í landinu undanfarna mánuði og þau stærstu voru í seinustu viku.  Sorp­hirðufólk, lest­ar­stjór­ar og kenn­ar­ar, svo nokk­ur dæmi séu tek­in, voru meðal þeirra starfstétta sem fóru í verkfall til að mót­mæla þess­um breyt­ing­um.

Borne sagði í þingsal að þjóðin „gæti ekki veðjað á ellilífeyri.“ Hún vísar í grein 49.3 í frönsku stjórnarskránni, sem heimilar forsætisráðherra að ýta frumvarpinu í gegnum þingið, þrátt fyrir mótmæli stjórnarandstöðu, til þess að flýta fyrir þingsköpum.

Vantrauststillaga og sungið í sal

Ákvörðunin fékk afar neikvæðar móttökur og þingmenn í stjórnarandstöðu mótmæltu með öllum látum, t.a.m. með því að púa forsæisráðherrann. Vinstri vængur stjórnarandstöðunnar byrjaði jafnvel í háðsskyni að syngja Marseillasinn, franska þjóðsönginn, þegar frumvarpið var samþykkt.

Fulltrúar Þjóðarfylkingarinnar (f. Rassemblement National), sem er hægri-flokkur í landinu, hafa sagst ætla að leggja fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina en það er það eina sem getur komið í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum.

Marine Le Pen, formaður Þjóðarfylkingarinnar og fyrrum forsetaframbjóðandi, sagði á þinginu að ákvörðun forsætisráðherra væri „algjört afglap“ og að Borne þyrfti að segja sig frá starfi.

mbl.is