Næstu skref Netanyahus óljós

Forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu, hét því að fresta umdeildu lagafrumvarpi …
Forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu, hét því að fresta umdeildu lagafrumvarpi í gær. Óljóst er hvað hann mun gera í framhaldinu. AFP

Mikið hefur gengið á í Ísrael að undanförnu. Hundruð þúsundir hafa mótmælt umdeildu lagafrumvarpi sem ríkisstjórn Benjamin Netanyahu hyggst samþykkja. Forsætisráðherrann hét því í gær að fresta löggjafarferlinu þangað til í apríl, en ekki er ljóst hvað frestunin þýði fyrir framhaldið. 

Íhaldsstjórn forsætisráðherrans hefur þegar samþykkt lagafrumvarp sem skerðir vald hæstaréttar til að úrskurða sitjandi forseta vanhæfan til embættis. Nýju lögin kveða einnig á um að aðeins forsætisráðherrann sjálfur geti gert ákall um að vera vikið frá störfum vegna eigin vanhæfni, eða ef tveir-þriðju af þinginu greiði atkvæði gegn honum.  

Segir hæstarétt landsins þjást af elítisma

Lagafrumvarpið og ríkistjórnin hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að ganga gegn lýðræðislegri stjórnskipan, sem jaðrar við einræðishyggju. Yrði frumvarpið að lögum myndi það meðal annars veita ríkistjórninni vald til að skipa hæstaréttardómara og fella niðurstöður hæstaréttar landsins, með meirihluta á þingi.

Netanyahu segir breytinguna nauðsynlega til að koma á valdajafnvægi milli löggjafarvalds og dómsvalds, sem að hans mati sé skekkt. Forsætisráðherrann segir hæstarétt landsins þjást af elítisma og að dómstóllinn endurspegli ekki vilja ísraelsku þjóðarinnar. Ríkisstjórnin aftur á móti, sé kjörin af þjóðinni og endurspegli því gildi hennar og vilja.  

Sakaður um spillingu

Forseti Ísrael, Isaac Herzog, biðlaði í gær til forsætisráðherrans að gera hlé á löggjafarferlinu í almannaþágu. Ríkislögmaður landsins, Gali Baharav-Miara, hefur ásakað forsætisráðherrann um ólögleg afskipti vegna frumvarpsins, en hann er sjálfur ákærður fyrir mútur, svik og trúnaðarbrot. Andstæðingar frumvarpsins hafa kallað það leið fyrir Netanyahu til að fella dóm gegn sjáfum sér úr gildi, úrskurði hæstiréttur hann sekan um spillingu.

Skilti mótmælenda sýnir Netanyahu bak við lás og slá.
Skilti mótmælenda sýnir Netanyahu bak við lás og slá. AFP

Enn frekari mótmæli brutust út á sunnudaginn í kjölfar ákvörðunar Netanyahus um að reka varnarmálaráðherra landsins, Yoav Gallant, eftir að hann andmælti lagafrumvarpinu af þjóðaröryggisástæðum. Kallað var til allsherjarverkfalls í landinu í kjölfar brottreksturs Gallant, og sögðu gangrýnendur Netanyahus brottreksturinn sýna fram á að öryggi þjóðarinnar væri ekki í forgangi hjá forsætisráðherranum.

Á milli steins og sleggju

Seinnipart gærdags ávarpaði Netanyahu þjóðina og hét því að fresta frumvarpinu og leyfa lengri tíma til umræðna, til að koma í veg fyrir frekari klofningu í samfélaginu. Þá sagði hann frumvarpið verða tekið upp á þingi í apríl í staðinn. Stuttu eft­ir að Net­anya­hu tilkynnti hléið, var end­ir bund­inn á verk­föll­in í land­inu.

Spurningin er nú hvort Netanyahu hverfi algjörlega frá áformum sínum um löggjöfina, í takt við áköll mótmælenda eða komi þeim í gegn á þingi í apríl.

Innleiði hann lagabreytinguna í apríl á hann á hættu að mótmæli og verkföll brjótist aftur út með tilheyrandi afleiðingum fyrir þjóðaröryggi, efnahag og sambönd við bandalagsríki.  

Hverfi hann hins vegar algerlega frá lagafrumvarpinu á hann það á hættu að vera vikið úr embætti sínu, úrskurði hæstiréttur hann sekan um spillingu eða að bandamenn hans í ríkisstjórn dragi sig úr samstarfinu og hrindi af stað kosningum, sem hann gæti tapað í kjölfar mótmælanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert