Segja að Biden muni opinbera framboð í næstu viku

Joe Biden Bandaríkjaforseti er 80 ára.
Joe Biden Bandaríkjaforseti er 80 ára. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti mun sækjast eftir endurkjöri og ætlar að opinbera framboðið sitt í næstu viku. Þetta herma heimildir Washington Post.

Í umfjöllun miðilsins kemur fram að myndskeið verði birt í næstu viku þar sem Biden muni kynna framboð sitt en þá verða fjögur ár liðin frá því að hann tilkynnti framboð sitt til forseta árið 2020 þegar hann skákaði þáverandi Bandaríkjaforseta, Donald Trump.

Yrði 86 ára við lok kjörtímabilsins

Biden hefur gefið það í skyn að hann muni bjóða sig aftur fram en hefur ekki enn opinberað þær fyrirætlanir. Um 52,7% Bandaríkjamanna segjast óánægð með störf forsetans samkvæmt samantekt FiveThirtyEight.

Samkvæmt Washington Post hafa samstarfsmenn Biden unnið að undirbúningi framboðsins frá því á síðasta ári. Ef Biden yrði endurkjörinn væri hann 86 ára þegar kjörtímabilinu lyki árið 2028.

Mestar líkur eru taldar á því að Donald Trump verði mótframbjóðandi Biden og hann hefur þegar kunngjört framboð sitt en Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, hefur einnig gefið það í skyn að hann muni bjóða sig fram gegn Trump í forvali Repúblikana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert